Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Brigðul áætlun í innanlandsflugi veldur óþægindum

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Mikið ber á óánægju meðal margra þeirra sem reiða sig á innanlandsflug Icelandair. Brigðul áætlun flugfélagsins veldur farþegum óþægindum og þeir segjast nánast hættir að treysta útgefinni áætlun.

„Þetta er pirrandi“

Óáreiðanleiki, ósveigjanleiki og lélegt upplýsingaflæði, segja reglulegir notendur innanlandsflugs Icelandair að einkenni þjónustuna. Mikið hefur verið um seinkanir og að hætt sé við flug, allt frá áramótum. Tvöfalt fleiri ferðum í innanlandsflugi hefur verið aflýst en árið 2019 og þetta veldur íbúum á landsbyggðinni, sem þurfa að reiða sig á þjónustuna, töluverðum óþægindum. „Það er rúmlega klukkutíma seinkun en ég er að fara suður því ég þarf að fara til læknis og ég hafði fyrirvara á mér vegna þess að ég átti tíma 10:20 á morgun. Ef læknistíminn hefði verið í dag hefði ég misst af honum, það er bara svo einfalt. Þetta er pirrandi,“ segir Karen Erna Erlingsdóttir, íbúi á Egilsstöðum.

Erfitt að sinna vinnu þegar flug er óáreiðanlegt

Mörgum hefur ennfremur reynst erfitt að sinna vinnutengdum erindum í höfuðborginni vegna óáreiðanlegs flugs. „Það vissulega hefur áhrif því þegar maður er að gera ráð fyrir því að geta mætt til Rekjavíkur á réttum tíma og mætt á fundi þarf að seinka þeim oft og tíðum, það getur komið sér illa fyrir mann,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, íbúi á Akureyri. Finnbogi Dagur Sigurðsson, tilvonandi íbúi Ísafjarðar tekur undir þetta, „maður getur yfirleitt ekki treyst þessu, sérstaklega að fara í og úr vinnu þegar maður ætlar að skreppa vestur og fara svo aftur suður fyrir einhvern ákveðinn tíma í vinnu. Svo bara eins og gerðist í dag, maður er ekki að búast við þessu og svo á maður lítið barn sem átti að vera löngu farið að sofa sem þurfti að drösla hingað upp á flugvöll.“

Upplýsingagjöf verulega ábótavant

Flestir viðmælendur eru sammála um að upplýsingagjöf sé verulega ábótavant. „Auðvitað hafa þeir borið við ýmsum ástæðum vegna þessara seinkana og ég get alveg skilið að það hafi verið bæði covid, veikindi, vélarbilanir og fleira en hins vegar finnst manni að upplýsingagjöf til farþega mætti vera betri og markvissari, klárlega,“ segir Guðmundur. Guðbjartur Jónsson og Rósa Magnúsdóttir, íbúar á Ísafirði, bæta við að best væri að geta treyst á flugið og stundvísi þess.