Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Upphæð óverðtryggðra lána þrefaldaðist í faraldrinum

30.06.2022 - 10:02
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Mikil breyting varð á samsetningu íbúðalána í heimsfaraldrinum. Upphæð óverðtryggðra íbúðalána hjá viðskiptabönkunum þrefaldaðist á tímabilinu, úr 370 milljörðum í 1.090 milljarða króna. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Mun minni breyting var á öðrum tegundum íbúðalána. Færst hefur verulega í aukana að tekin séu óverðtryggð lán. Þessa þróun má rekja til lækkunar stýrivaxta hjá Seðlabanka Íslands, sem hófst árið 2019 og stóð til vormánaða 2021.

Þetta hefur leitt til þess að rúmlega helmingur útistandandi íbúðalána er óverðtryggður og tæplega helmingur er verðtryggður. Til samanburðar voru 30 prósent lána óverðtryggð og 70 prósent verðtryggð í byrjun árs 2014. 

Heildarupphæð íbúðalána í apríl var 2.280 milljarðar króna. Þar af voru 71 prósent upphæðarinnar hjá viðskiptabönkunum, 22 prósent hjá lífeyrissjóðunum og sjö prósent hjá lánasjóðum ríkisins. Þetta er mikil breyting frá því sem áður var en í byrjun árs 2014 var hlutdeild viðskiptabankanna 42 prósent, lífeyrissjóða 13 prósent og lánasjóða ríkisins 45 prósent.  

ingibjorgsg's picture
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
Fréttastofa RÚV