Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hjólhýsabyggð aflögð á Laugarvatni

30.06.2022 - 20:45
Hjólhýsabyggðin á Laugarvatni verður lögð af. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar ákvað í gær að ganga ekki að skilyrtu tilboði hjólhýsaeigendanna enda væri sveitarfélaginu það óheimilt.

Hjólhýsabyggðin hefur verið á Laugarvatni í 50 ár og haft leigusamning við sveitarfélagið, nú Bláskógabyggð. Margir hjólhýsaeigendur hafa lagt mikla vinnu í að gera fínt í kringum sig og líka byggt skúra, palla og grindverk. Nú eru um 140 hjólhýsi þarna en þau voru tæp 200. 

Félag hjólhýsaeigendanna, Samhjól, sendi sveitarfélaginu tilboð þar sem það býðst til að greiða fyrir nauðsynlegar framkvæmdir eins og brunavarnir, vatnslagnir og fleira. Sveitarstjórnin afgreiddi erindið endanlega á fundi í gær: 

Ekki hægt að ganga að tilboðinu

Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri Bláskógabyggðar segir sveitarfélagið ekki hafa getað gengið að tilboð félagsins. „Tilboðið var bundið því skilyrði að þetta félag, félagsmenn eru flestir með útrunna samninga, fengi að vera þarna áfram í tíu ár og framlengjast síðan í tvö ár í senn. Það er atriði sem að sveitarfélagið getur ekki gengið að. Því að með því að úthluta þessum svæði þá er sveitarfélagið að úthluta opinberum gæðum sem að eru takmörkuð. Það þarf bara að fylgja ákveðnum reglum um það, hafa valferli þar sem að allir geta bara sótt um sem hafa áhuga. Og þetta snerist líka um það að það yrði sami rekstraraðili að svæðinu. Hann er líka með samning sem er að renna út.“

Hrafnhildur Bjarnadóttir formaður Samhjóls segir að þau séu afar óánægð með það hvernig staðið var að málinu frá upphafi af hálfu sveitarfélagsins og að þau séu að skoða betur hvað þau gera í framhaldinu. Hjólhýsabyggð er víða í uppsveitum Árnessýslu, meðal annars í Úthlíð. „Það eru Brunavarnir Árnessýslu sem hafa eftirlit með því og þeir munu bara væntanlega skoða það líka. Þeir voru búnir að taka út þetta svæði á Laugarvatni og upphaf málsins í rauninni, eða á frumstigum, kom mjög skýr ábending frá þeim um það að öryggi fólks væri bara verulega ógnað þarna,“ segir Ásta.

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir