Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Gagnrýna slitlagsviðgerðir Vegagerðarinnar

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Formaður bílaleigunefndar Samtaka ferðaþjónustunnar gagnrýnir slitlagsviðgerðir Vegagerðarinnar sem hann segir hafi fjölgað framrúðubrotum og sprungum svo um munar, með tilheyrandi kostnaði og slysahættu. Hann segir að kostnaðurinn nemi hundruðum milljóna árlega fyrir bílaleiguna Hertz þar sem hann starfar. Vegagerðin segir erfitt að leysa þetta vandamál að fullu en leiðibílum hafi verið fjölgað.

 

Hendrik Berndsen, formaður bílaleigunefndar Samtaka ferðaþjónustunnar, skrifaði grein á Vísi í morgun sem ber yfirskriftina Steinkast stútar sumrinu. Þar eru slitlagsviðgerðir Vegagerðarinnar gagnrýndar. Hann segir að harpaðri möl sé dreift yfir olíu sem ökumenn og umferð séu látin þjappa og valdi tjóni vegna steinkasts.

„Fyrir fimm eða sex árum síðan var sprenging í kostnaði. Núna í ár þegar okkur vantar bíla og við fáum ekki rúður í bílana og tímann sem tekur að skipta um. Í dag hjá okkar fyrirtæki eru 30 bílar stopp af því að það vantar framrúðu í þá. Þetta er óþarfa kostnaður og mengun,“ segir Hendrik.  

Rúðurnar geta kostað allt frá frá 50-300.000 þúsund og upp í milljón fyrir rútur. „Við erum ekki að taka inn í til dæmis þessa bíla sem stoppa.“ Tekjumissirinn af hverjum bíl sé um tugir þúsund. „En beinn kostnaður hjá okkur slagar upp í 100 milljónir á ári og óbeinn kostnaður er örugglega annað eins.“

Nota leiðibíla til að draga úr steinkasti

G. Pétur  Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að Vegagerðin hafi reynt að bregðast við með því að auka notkun svokallaðra leiðibíla. Þeir leiði bílaraðir yfir lengri kafla,  passi að bílar mætist ekki og dragi þannig úr steinkasti.

„Við erum ekki að láta umferðina þjappa þetta eins og er almennt talað um, heldur er þjappað. Í öðru lagi þá þarf að líða ákveðinn tími frá því að það er þjappað og verkinu er lokið þar til að hægt er að sópa og losa sig við lausu steinana. Þetta þarf að taka sig áður en það er hægt. Þess vegna er ekki hægt að koma öðru verklagi á,“ segir Pétur. 

Hendrik segir að þetta skapi mikla hættu, því ferðamanninum bregði oft mjög og aki útaf. „Því miður hefur Vegagerðin ekki viljað hlusta á kall Samtaka ferðaþjónustunnar sem hefur oftar en ekki rætt þetta við Vegagerðina á fundum. Eina sem kom í gegn var að kornastærðin minnkaði. En við vitum að það eru til valtrarar sem eru með gúmmíhjól sem geta valtrað þetta eins og gúmmídekk á bílum.“

Samtökin hafa bent Vegagerðinni á að sópun og völtun gæti bjargað miklu auk merkinga sem boða lækkaðan hraða, sem sé ábótavant.

Vegagerðin í átaki í merkingum

G. Pétur segir að Vegagerðin yrði ekki komin langt með bundið slitlag ef ætti að leggja malbik alls staðar sem kosti þrisvar til fimm sinnum meira. Klæðing sé notuð víða í heiminum í stað malbiks.

„Það er enginn lausn við því að laga þetta alveg en við vinnum auðvitað að því að draga sem mest úr því að þetta gerist.“

 

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV