Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Erdogan segir Tyrki enn geta beitt neitunarvaldi

30.06.2022 - 17:54
epa10040249 Turkish President Recep Tayyip Erdogan arrives to participate in the first day of the NATO Summit at IFEMA Convention Center, in Madrid, Spain, 29 June 2022. Some 40 world leaders are to attend the summit, running from 29 to 30 June, focused on the ongoing Russian invasion of Ukraine. Spain hosts the event to mark the 40th anniversary of its accession to NATO.  EPA-EFE/Fernando Villar
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti varaði við því í lok leiðtogafundar NATO að Tyrkir gætu enn ákveðið að beita neitunarvaldi gegn umsóknum Finna og Svía um aðild að bandalaginu. Sagði Erdogan að það gæti gerst ef ríkin tvö standa ekki við samkomulag sem þau gerðu við Tyrki.

Tyrkir lögðust í upphafi einir gegn aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu. Þeir kröfðust þess að ríkin afléttu banni við sölu vopna til Tyrklands og hættu að skjóta skjólshúsi yfir meinta hryðjuverkamenn, einkum úr röðum Verkamannaflokks Kúrda - sem NATO flokkar sem hryðjuverkasamtök.

Þótt samkomulag sem náðist á þriðjudaginn hafi þótt nógu gott til að Erdogan segðist falla frá neitunarvaldinu hótaði hann að beita því á nýjan leik í dag. Erdogan sagði að ef ríkin tvö stæðu við gefin loforð yrði umsóknin send í dóm þingsins, annars ekki.

Tyrklandsstjórn krafðist þess í gær að Finnar og Svíar framseldu 33 meinta hryðjuverkamenn. Sauli Niinistö, forseti Finnlands, sagði útlit fyrir að Tyrkir væru þar að tala um áður útkljáð mál sem hefðu farið í gegnum finnska dómskerfið. Því væri óþarfi að taka þau upp á ný.

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagðist gjarnan vilja vinna með Tyrkjum en hún myndi fylgja sænskum landslögum og því ekki framselja sænska ríkisborgara.