Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ekki sátt við þjónustuna sem við erum að veita núna“

30.06.2022 - 19:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Mikil röskun hefur orðið á innanlandsflugi frá ársbyrjun, töluvert meiri en önnur ár. Hlutfall seinkaðra ferða af heildaráætlun var á bilinu 21,7% og 27%, misjafnt eftir landshlutum. Talsverð röskun hefur verið í dag og til að bregðast við því voru skipulögð þotuflug til Akureyrar og Egilsstaða.

Reikna með því að ástandið komist í lag í næstu viku

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair segir félagið ekki sátt við þá þjónustu sem þau séu að veita. „Nei við erum ekki sátt við þjónustuna sem við erum að veita núna, það liggur fyrir. Okkar fólk er að vinna að því hörðum höndum að bæta úr þessu. Við reiknum bara með að ástandið verði komið í lag í næstu viku ef ekkert kemur upp.“

Vélarnar ættu að geta annað áætluninni

Ástæður raskana á flugi í dag eru að ein vél er í viðhaldsskoðun og tæknileg vandamál hafa komið upp með tvær aðrar. Vélar Icelandair sem sinna innanlandsflugi og áætlunarflugi til Grænlands eru fimm í heildina svo að aðeins tvær þeirra voru til taks í dag. Bogi segir að áætlunin sé þannig upp byggð að hægt eigi að vera að bregðast við hnökrum, en þau hafi verið óheppin síðustu vikur. „Það sem við höfum náttúrulega líka verið að lenda í er að þessar viðhaldsskoðanir sem flugvélar fara alltaf í með reglubundnu millibili hafa verið að taka lengri tíma bara útaf ástandinu í heiminum. Aðfangakeðjan hefur verið að bresta allstaðar og það á við um okkur líka,“ segir Bogi.

Icelandair hafi gefið rangar upplýsingar um bótarétt

Neytendasamtökin lýsa í tilkynningu yfir vonbrigðum með raskanir á innanlandsflugi en fagna því að brugðist hafi verið við röskununum í dag. Samtökin telja að misbrestur hafi verið á upplýsingagjöf til farþega um bótarétt þeirra. Breki Karlsson, formaður neytendasamtakanna segir Icelandair jafnvel hafa gefið farþegum þær röngu upplýsingar að þeir eigi ekki rétt á bótunum þegar um innanlandsflug sé að ræða.

Bogi Nils Bogason segir farþega sannarlega eiga rétt á þessum bótum. „Ef einhver starfsmaður okkar hefur sagt þetta þá veit ég ekki alveg afhverju það hefur verið og það er bara miður. Það er alls ekki rétt og alls ekki upplýsingar sem við erum að biðja okkar starfsfólk um að koma á framfæri því að það er bara ákveðinn bótaréttur í flugi og það á líka við um innanlandsflug.“

Viðskiptavinir óánægðir með upplýsingagjöf

Farþegar innanlandsflugs hafa vakið máls á lélegri upplýsingagjöf í kringum raskanir á flugi. Upplýsingar berist seint og séu misvísandi. Spurður útí gæði þjónustunnar í samhengi við upplýsingagjöf segir Bogi Nils flugfélagið sífelt vera að leita leiða til að bæta sig. „Við erum alls ekki sátt við það þegar okkar viðskiptavinir eru ekki ánægðir. Okkar rekstur gengur útá að uppfylla væntingar okkar viðskiptavina og ef það er ekki að ganga, þá verðum við að bæta okkur.“