
Breska þingið staðfestir barnabann
Þingnefndin ályktaði að þingmenn sem ætluðu að taka þátt í eða fylgjast með umræðum í þingsal mættu ekki koma með börn þangað inn.
Forseti breska þingsins, Lindsay Hoyle, óskaði eftir því að þingnefndin ræddi viðveru barna í þingsal eftir að þingmaður Verkamannaflokksins, Stella Creasy, mætti á rökræður í þinginu með þriggja mánaða gamlan son sinn í fanginu.
Í kjölfarið var þingforsetanum bent á að samkvæmt reglum þingsins væru börn bönnuð í þingsal.
Margir voru ósáttir með að Creasy hefði tekið son sinn með á þingfund. Aðrir lýstu yfir stuðningi við hana, meðal annars Dominic Raab, fyrrum utanríkisráðherra, sem sjálfur á ung börn.
Í samtali við BBC sagði Creasy að það væri tími til að nútímavæða starf þingmanna og gera foreldrum kleift að ná jafnvægi á milli vinnu og fjölskyldulífs.
Creasy er ekki fyrsti þingmaðurinn til að mæta á þingfund með barn. Árið 2018 tók Jo Swinson, fyrrum leiðtogi frjálslyndra demókrata í breska þinginu, þátt í umræðum í þingsal með son sinn, þá ellefu mánaða, með sér.