Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Breska þingið staðfestir barnabann

30.06.2022 - 10:51
epa05059527 The Royal barge Gloriana sails under Westminster Bridge towards the Houses of Parliament in London, Britain 09 September 2015. A small royal flotilla sails down the Thames to mark the millstone date the as Queen Elizabeth II passed Queen
Breska þinghúsið. Mynd: EPA
Þverpólitísk þingnefnd í breska þinginu hefur staðfest reglur um að þingmönnum sé bannað að koma með börn inn í þingsal meðan umræður fara fram. Þingnefndin tók málið fyrir eftir að þingmaður mætti á þingfund með þriggja mánaða barn í fanginu.

Þingnefndin ályktaði að þingmenn sem ætluðu að taka þátt í eða fylgjast með umræðum í þingsal mættu ekki koma með börn þangað inn. 

Forseti breska þingsins, Lindsay Hoyle, óskaði eftir því að þingnefndin ræddi viðveru barna í þingsal eftir að þingmaður Verkamannaflokksins, Stella Creasy, mætti á rökræður í þinginu með þriggja mánaða gamlan son sinn í fanginu.

Í kjölfarið var þingforsetanum bent á að samkvæmt reglum þingsins væru börn bönnuð í þingsal. 

Margir voru ósáttir með að Creasy hefði tekið son sinn með á þingfund. Aðrir lýstu yfir stuðningi við hana, meðal annars Dominic Raab, fyrrum utanríkisráðherra, sem sjálfur á ung börn.

Í samtali við BBC sagði Creasy að það væri tími til að nútímavæða starf þingmanna og gera foreldrum kleift að ná jafnvægi á milli vinnu og fjölskyldulífs. 

Creasy er ekki fyrsti þingmaðurinn til að mæta á þingfund með barn. Árið 2018 tók Jo Swinson, fyrrum leiðtogi frjálslyndra demókrata í breska þinginu, þátt í umræðum í þingsal með son sinn, þá ellefu mánaða, með sér.

peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV