Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

ÁTVR má ekki velja vörur eftir eigin framlegð

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
ÁTVR er ekki heimilt að velja og hafna vörum eftir því hversu mikið stofnunin hagnast á sölu þeirra, heldur ber henni að miða við vinsældir þeirra, þ.e. seldan einingafjölda. Að þessu komst Héraðsdómur Reykjavíkur í morgun. Jónas Friðrik Jónsson lögmaður segir að dómurinn geti haft áhrif á vöruframboð í verslunum ÁTVR og orðið til þess að auka framboð á ódýrum tegundum, ef þær njóta vinsælda. ÁTVR hefur ekki tekið ákvörðun um hvort dómnum verði áfrýjað.

„Hér kemst dómurinn að þeirri niðurstöðu að framlegðarkerfi ÁTVR stenst hvorki lög né stjórnarskrá enda felur það í sér takmarkanir á atvinnufrelsi,“ segir Jónas en hann var lögmaður áfengisinnflytjandans Dista í málinu gegn ÁTVR.

Málið snerist um tvær bjórtegundir sem fyrirtækið Dista flytur inn, Faxe IPA og Faxe Witbier. ÁTVR tilkynnti birginum snemma árs 2021 að ákveðið hefði verið að taka þessar tvær tegundir úr sölu þar sem þær hefðu ekki náð „tilskildum söluárangri“.

Vísað var í reglur stofnunarinnar, sem settar eru af ráðherra, en í þeim segir að vörur séu teknar úr sölu ef framlegð þeirra, þ.e. mismunur á sölu- og innkaupsverði ÁTVR, er sérlega lág.

Í ljósi þess að álagning ÁTVR er föst prósenta, 18 prósent, þýðir það að framlegð er meiri af dýrari vöru en ódýrari þótt þær seljist jafn vel. Þannig reyndust níu bjórtegundir úr sama viðmiðunarflokki hafa selst verr á liðnu ári en ein af þeim tegundum sem ÁTVR ákvað að taka úr sölu. 

Birgirinn höfðaði í kjölfarið mál og taldi að með þessu væri brotið gegn 11. grein laga um verslun með áfengi og tóbak, en þar er kveðið á um að ÁTVR skuli gæta jafnræðis við val á vöru og ákvörðun um sölu og dreifingu og að reglur um vöruval skuli miða að því að tryggja úrval, með hliðsjón af eftirspurn kaupenda.

Ráðherra setur nánari reglur um vöruval, innkaup og dreifingu ÁTVR á áfengi. Reglurnar skulu miða að því að tryggja vöruúrval m.a. með hliðsjón af eftirspurn kaupenda jafnframt því að tryggja framleiðendum og birgjum áfengis möguleika á að koma vörum í sölu í áfengisverslunum.
–lög um verslun með áfengi og tóbak

Birgirinn byggði mál sitt á því að vegna einkaleyfis ÁTVR til smásölu áfengis, fæli sérhver ákvörðun stofnunarinnar í sér takmarkanir á stjórnarskrárvörðu atvinnufrelsi og því þyrftu þær að byggja á skýrri og ótvíræðri lagaheimild. Engin heimild væri fyrir því í lögum að miða við framlegð heldur væri einmitt kveðið á um eftirspurn vöru.

Reglur um framlegð settar út frá hagsmunum ÁTVR

ÁTVR krafðist sýknu í málinu og taldi ótvírætt að viðmið um framlegð væri best til þess fallið að uppfylla skilyrði laganna. Með því að miða við framlegð vöru væri líka tryggt að varan uppfyllti tilteknar gæðakröfur, enda héldust vöruverð og gæði í hendur.

Sagði ÁTVR viðbúið að ef eingöngu ætti að fara eftir söluárangri, þ.e. fjölda seldra eininga, væri viðbúið að ódýrara áfengi myndi ryðja ýmsu öðru út.

Í dómi Héraðsdóms er tekið undir með birginum að ekki sé lagaheimild fyrir því að forgangsraða tegundum eftir framlegð. Um sjónarmið ÁTVR segir dómurinn:

„Með því að miða við framlegð vöru, sem mælikvarða við val á vörum í verslanir stefnda, er megináherslan að mati dómsins lögð á fjárhagslega afkomu [ÁTVR] sjálfs. Valin er sú vara sem skilar mestri framlegð fyrir hann, eða á mannamáli, sú vara sem skilur mest eftir í kassa [ÁTVR] en hvorki á vilja kaupenda né á eftirspurn eftir vöru.“

 

Bjórtegundirnar tvær verða því settar aftur í sölu og var ÁTVR gert að greiða birginum málskostnað upp á 1,75 milljónir króna.

Dómurinn í heild

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV