Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Algengt að land sé ræst fram í óleyfi

30.06.2022 - 14:47
Mynd með færslu
Jóhann Þórsson, vistfræðingur hjá Landgræðslunni. Mynd: Kveikur - RÚV
Jóhann Þórsson, vistfræðingur hjá Landgræðslunni, segir að eftirliti með framræsingu lands sé ábótavant. Dæmi séu um að sveitarfélög líti framhjá ákvæðum náttúruverndarlaga um skipulagsleyfi þegar bændur ræsi fram land án þess að hafa aflað leyfis.

Framræsing lands vinnur þvert gegn markmiðum Landgræðslunnar um endurheimt votlendis, sem talin er stærsta einstaka aðgerðin sem hægt er að ráðast í til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Kveikur: Af hverju að moka ofan í skurð?

Samkvæmt náttúruverndarlögum nýtur votlendi sérstakrar verndar, og ber að sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarfélags ef raska á stærra votlendi en sem nemur tveimur hekturum (20.000 fermetrum) lands, til dæmis með skurðgreftri.

Jóhann Þórsson, vistfræðingur hjá Landgræðslunni, segir að sveitarfélög séu mörg hver lítt áhugasöm um að fylgja reglunum. Þetta eigi einkum við um fámenn sveitarfélög.

Við jörðina Marteinstungu í Rangárþingi ytra er til dæmis hafin vinna við heillangan skurð, sem Jóhann segir ljóst að hafi áhrif á tugi hektara lands og valdi þannig losun um 200 tonna af koltvísýringi á ári. Því hefði með réttu átt að sækja um leyfi. Samkvæmt upplýsingum frá Rangárþingi ytra var ekki sótt um leyfi, en byggingarfulltrúi sveitarfélagsins sagðist ekki geta sagt til um að svo stöddu hvort þess hefði þurft. Það væri í skoðun.

Jóhann segir þetta mál ekki einsdæmi. Reglulega séu grafnir skurðir sem hafa áhrif á mikið land, án þess að leyfis sé aflað.

Gústav M. Ásbjörnsson sviðstjóri á landverndarsviði Landgræðslunnar þekkir ekki til þess tiltekna máls, en tekur undir að stjórnsýslu sé víða ábótavant. „Okkur hefur þótt að það mætti bæta stjórnsýsluna í kringum þennan hluta.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Í mýrar safnast mikið magn lífræns efnis. Séu þær þurrkaðar til að nýta sem beitiland kemst súrefni í tæri við efnið og loftháðar örverur taka til við að losa kolefni.

Endurheimt votlendis

Á sama tíma og grafnir eru skurðir hér og þar, vinnur Landgræðslan að hinu gagnstæða. Að moka ofan í skurði og endurheimta votlendi. Slíkt getur reynst þrautin þyngri.

„Það getur reynst mjög erfitt að finna land til að endurheimta því það geta verið margir landeigendur um svæði og þá þurfa þeir að vera sammála,“ segir Jóhann. Landgræðslan hefur það fyrir reglu að sækja alltaf um framkvæmdaleyfi óháð stærð framkvæmda og þá er stofnunin upp á náð og miskunn sveitarstjórna.

„Menn eru almennt á móti endurheimt votlendis. Það er línan innan sveitarstjórna. Þótt þetta sé sú loftslagsaðgerð sem skilar hvað mestu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend - RÚV
Gröftur norðan Marteinstungu í Rangárþingi. Þar var ekki sótt um framkvæmdaleyfi.
alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV