Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vítalía biður aðra þolendur afsökunar

29.06.2022 - 21:35
Mynd með færslu
 Mynd: Edda Falak - Eigin konur
Vítalía Lazareva hefur birt færslu á Twitter þar sem hún segist biðjast afsökunar á því að hafa brugðist öðrum þolendum. Vítalía sakaði þá Ara Edwald, Hreggvið Jóns­son og Þórð Má Jóhannes­son í vetur opinberlega um að hafa brotið á sér kynferðislega.

Vítalía birti 22. mars síðastliðinn mynd á Twitter sem sýndi að hún hefði bókað tíma hjá lögreglu. Færslan var túlkuð þannig að hún hygðist leggja fram kæru á hendur mönnunum þremur. Staðfest hefur verið að kæran var aldrei lögð fram. 

Í nýrri færslu á Twitter segist Vítalía biðjast afsökunar á að hafa brugðist öðrum þolendum. Hún kemur ekki inn á sannleiksgildi ásakana um fjárkúgun en staðfestir að hafa ekki mætt í skýrslutöku eftir að hafa pantað tíma til að leggja fram kæru hjá lögreglu. Skilja má af færslunni að hún hafi talið sig vera búna að leggja fram kæru. 

Mennirnir sem Vitalia sakaði opinberlega um kynferðisbrot gagnvart sér hafa kært Vitaliu og Arnar Grant fyrir tilraun til fjárkúgunar. Um þetta hefur verið fjallað í fjölmiðlum. Arnar Grant hefur í yfirlýsingu vísað ásökunum um tilraunir til fjárkúgunar á bug. Fréttastofa hefur ítrekað reynt að ná tali af Vítalíu án árangurs.

Twitterfærsla Vitalíu í heild sinni

„Mig langar að biðjast afsökunar, afsökunar á því að hafa brugðist öðrum þolendum og langar til að einblína á að ég get ekki tekið ábyrgð á öllum fréttaflutning. Ég lagði fram bréf til kærumóttöku kynferðisbrota sl mars hjá lögreglunni og setti mynd hér inn því til staðfestingar. - Ég hef alltaf haldið að það að fylla út slíkt blað með fyrirspurnum og spurningum hvað varðar kynferðisbrot þýddi “eitthvað”. Ég hef ekki mætt í skýrslutöku eins og hefur oft komið fram og hef ég aldrei sagt annað. Ég biðst afsökunar. Afsökunar á að vita ekki betur.“

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir