Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Um 40% áttatíu ára og eldri þegið fjórðu sprautuna

29.06.2022 - 15:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
40% af aldurshópnum 80 og eldri hafa þegið fjórðu sprautuna við Covid. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hvetur þennan hóp til að mæta í bólusetningu. Frekari bólusetning yngri aldurshópa hefur ekki verið ákveðin.

„Hvað verður gert í haust er óljóst. Það er mismunandi hvað hin Norðurlöndin ætla að gera. Sum ætla að miða við að bjóða 65 ára og eldri, Danir eru að tala um 50 ára og eldri. Þannig að það hefur ekki verið endanlega ákveðið hjá okkur en það er líklegt að við munum vera á svipuðu róli og hin Norðurlöndin en með þeim fyrirvara að við vitum ekki nákvæmleg hvaða afbrigði verður í gangi í haust og vitum ekki hvaða bóluefni verða í boði,“ segir Þórólfur Guðnason.

Rúmlega 400 greindust með veiruna í fyrradag. Eitthvað af þeim sem hafa smitast síðustu daga eru ekki fullbólusettir. Þórólfur segist þá veikjast meira.

Um 10% þeirra sem greinast núna eru að smitast í annað sinn. „Danir hafa til dæmis tilkynnt að þeir sjái meiri endursmitun við þetta BA.5 afbrigði sem er að aukast hér. Við þurfum bara að sjá hvort það sama er uppi á teningnum hér,“ sagði Þórólfur í hádegisfréttum. BA.5 er undirafbrigði af omíkron.