Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þrettán handteknir vegna hraðbankasprenginga

29.06.2022 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Þrettán meðlimir hollensks gengis sem sakaðir eru um að sprengja hraðbanka í Þýskalandi hafa verið handteknir í Hollandi, Þýskalandi og Belgíu. Þetta segir í tilkynningu frá Europol.

Fyrstu handtökurnar í málinu voru í mars og þær síðustu í júní. Voru mennirnir handteknir í fjórum hollenskum bæjum og borgum auk þýsku borgarinnar Meckingheim og Eupen í Belgíu.

Alls er gengið sagt standa að sprengingum á tuttugu og einum hraðbanka frá mars 2021 og fram í maí á þessu ári. Einni komma sex milljónum evra var stolið í árásunum og tjónið nemur um fjórum milljónum evra.

„Lögregla hefur áhyggjur af því að það hefur færst í aukana að glæpamenn beiti öflugum sprengjum til þess að komast inn í hraðbanka,“ segir í tilkynningu Europol. Sprengingarnar eru sagðar hættulegar almennum borgurum.

Þórgnýr Einar Albertsson