Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Pútín segir Finnum og Svíum frjálst að ganga í NATO

29.06.2022 - 23:56
epa05689213 Russian President Vladimir Putin watches a ceremony to launch natural gas supplies to Crimea from mainland Russia via a new gas pipeline connecting the Krasnodar Territory with the Crimea peninsula during a live video link in Moscow, Russia, 27 December 2016.  EPA/ALEXEI DRUZHININ / SPUTNIK / KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA
Vladimir Pútín, forseti Rússlands, segir að það sé ekkert vandamál fyrir Rússland að Finnar og Svíar gangi til liðs við NATO. Hann hefur áður varað vestræn ríki við að ganga í bandalagið.

Á blaðamannafundi í Túrkmenistan í dag sagði Pútín að Rússar ættu ekki í neinum útistöðum við Svía eða Finna eins og við Úkraínumenn.

„Ef þau vilja geta þau verið með, þau ráða því. Þau geta gengið í hvaða félagsskap sem þau vilja,“ sagði Pútín.

Rússar vöruðu áður við aðild að hernaðarbandalaginu

Í aðdraganda innrásarinnar í Úkraínu kröfðust rússnesk stjórnvöld þess að Atlantshafsbandalagið samþykkti engar nýjar aðildarumsóknir. Það tók til bæði til Úkraínu, Finnlands og Svíþjóðar.

Pútín greindi svo frá því í síðasta mánuði að hann hefði ekkert við aðildina að athuga. Utanríkis- og varnarmálaráðherrar Rússlands, nafnarnir Sergei Lavrov og Sergei Shoigu, hafa til þessa ekki farið í grafgötur með andstöðu Kremlarstjórnarinnar við aðildarumsókn Finna og Svía að Atlantshafsbandalaginu og varað við alvarlegum afleiðingum slíkrar umsóknar, án þess þó að tilgreina nánar í hverju þær myndu felast.