Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Loksins getum við slökkt á friðarsúlunni í Viðey

Mynd: Roman Gerasymenko / Aðsend mynd

Loksins getum við slökkt á friðarsúlunni í Viðey

29.06.2022 - 09:58

Höfundar

„Mig langar að lesa Russia Today. Ég vil kynna mér rússnesk sjónarhorn – þótt ég viti alveg jafn vel og góði dátinn Svejk að ég er hreinræktaður hálfviti, þá tel ég mig samt alveg geta horfst í augu við rússneskan áróður og rússneskt bull alveg eins og ég horfist í augu við vestrænan áróður og vestrænt bull í fjölmiðlum á hverjum einasta degi," segir Halldór Armand Ásgeirsson í síðasta pistli sínum fyrir sumarfrí.  

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Rosenthaler Platz í síðdegissólinni, 32 gráður, of heitt og hvergi loftræstingu að finna, borgin er ekki hönnuð fyrir þetta. Hópur fólks bíður við stoppistöðina á Brunnenstrasse, svitinn merlar á enninu, blævængirnir hreyfast til og frá í takt við dynkina í lestarteininum undir fótunum. Sumir tala í síma, súpa vatn úr flösku, aðrir halda utan um ástvin, eða stara út í buskann, týndir í eigin hugsunum. Á götuhorni krýpur kona í appelsínugulum samfestingi, fangaklæðnaði, hreyfingarlaus og þögul. Í kringum hana hafa útlínur fangaklefa verið teipaðar á gangstéttina með svörtu límbandi. Á pappaspjaldi stendur: „Julian Assange hefur verið fangelsaður í einangrunarklefa 1160 daga.“

Ég stend í skugganum, svitinn bogar úr hárinu niður vangann og dropar af hökunni til jarðar. Bolurinn er límdur við mig. Þreytuleg augun stara á símann, þumallinn skrollar niður, þarna birtast útskriftarveislur, garðtjöld, hljóðkerfi, kampavínsglös, hundar í skóginum, góðir dagar við vatnið – sumar í Evrópu. Ég lít á fólkið sem bíður við stoppistöðina og síðan á stelpuna sem er að leika Assange. Hún opnar augun og horfir beint á mig yfir götuna.

Í síðustu viku heimilaði Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, framsal Assange til Bandaríkjanna. Hann hefur fjórtán daga til þess að áfrýja. Bandarísk yfirvöld hafa reynt að hafa hendur í hári hans síðan árið 2010 og maður hefur lengi haft það á tilfinningunni að látum verði ekki linnt fyrr en tekist hefur að drepa hann eða að minnsta kosti tryggja að líf hans sé fullkomið helvíti á jörð. Hann dvaldi, eins og frægt er, í sendiráði Ekvador í London i næstum sjö ár, og hefur nú, eins og þessi gjörningur við Rosenthlaer Platz sýndi, verið í einangrun í bresku fangelsi í meira en þúsund daga. 

Það er ekki þægilegt að horfa á þennan gjörning. Mál Assange er afar óþægilegt viðureignar fyrir manneskju sem gerir sitt besta til að telja sér trú um að hún búi í frjálsum heimshluta þar sem heimilt er að leita sannleikans – já, það afhjúpar stóru lygina um frelsið sem við höfum heyrt svo mikið um, frjálsu sannleiksleitina, málfrelsið, mótmælafrelsið, fjölmiðlafrelsið, hugsanafrelsið, að ógleymdum frjálsu mörkuðunum. Ekkert af þessu er raunverulegt, því miður, og það sést eitthvað svo skýrt hérna í síðdegissólinni á Rosenthaler Platz.

Söknuður eftir RT

Glæpur Assange var sú ófyrirgefanlega höfuðsynd að sinna starfi sínu sem blaðamaður, afhjúpanir Wikileaks með myndböndum eins og Collateral Murder neyddu almenning á Vesturlöndum til þess að horfast í augu við þann hrylling sem stjórnvöld þeirra hafa drýgt, heimilað eða stutt á framandi slóðum, drógu leyndarmálin fram í dagsljósið, og sýndu fram á að við erum engir verndarenglar frelsisins, ekki okkar eigin, hvað þá annarra. 

Mál hans sýnir að í hinu frjálsa vestri er þér frjálst að segja sannleikann, upp að vissu marki, svo lengi sem hann er ekki of óþægilegur fyrir fólkið sem stjórnar því. Við höfum séð vísi af þessu hér á landi þar sem blaðamenn eru ofsóttir af stórfyrirtækjum og lögreglu fyrir að … já, vinna vinnuna sína.

Ég horfði stundum á Russia Today á YouTube, það voru ýmsir fínir þættir þar, til dæmis þátturinn On Contact með Pulitzer-verðlaunahafanum, rithöfundinum, hugsuðinum og alvöru gagnrýnisröddinni Chris Hedges, þar sem hann tók viðtöl við alls konar áhugavert fólk, sjálfstæða og frumlega hugsuði um stöðu mála í heiminum. Nú er búið að eyða öllum þáttunum enda hafa Vesturlönd, sjálf vagga frelsisins, ákveðið að ritskoða og banna öll sjónarhorn frá Rússlandi.

Að vissu leyti meikar það sens að RT hafi tekið hugsuðum eins og Hedges opnum örmum, fólki sem á ekki greiðan aðgang að meginstraumsfjölmiðlum í vestrinu vegna þess að það á það til að segja eitthvað óþægilegt um það hvernig vestræn samfélög haga sér gagnvart öðrum sem og sínu eigin fólki. Í raun var þetta afar snjöll skák – að gefa slíkum röddum heimili í rússneskum ríkismiðlum og sýna þannig fram á að hin frelsisunnandi Vesturlönd þola ekki raunverulega gagnrýni. Það er auðvitað alveg rétt, aftur, sjáðu bara hvernig fór fyrir Assange, ja, eða annarri hetju – Snowden.

En On Contact var aldrei um Rússland. Í þau fáu skipti sem Pútín barst í tal þar þá var ekki talað um hann á jákvæðum nótum, að sjálfsögðu ekki. Samt er búið að banna þáttinn, eyða gagnagrunninum, gagnrýnisraddirnar þagnaðar. Það blasir við að bæði heimsfaraldurinn, og núna stríðið í Úkraínu, er notað sem skálkaskjól til þess að þagga niður í óþægilegu fólki, allt saman í nafni sannleikans og frelsisins. Hér hafa ríkisstjórnir, leyniþjónustur og tæknirisar myndað saman bandalag.

Löggiltur hálfviti v. busi í MH

Vesturheimur trúði einhvern tímann, að minnsta kosti upp að einhverjum lágmarksþröskuldi, á þá speki, sem eflaust má rekja til John Stuart Mill, að það sé samfélaginu hollt að geta kynnt sér fjölbreytt sjónarhorn – besta leiðin til þess að vernda sannleikann og uppræta vitleysu sé ekki að banna hana, heldur afhjúpa hana. En það er löngu búið að kasta teningunum, við erum löngu komin yfir Rúbikon-fljót, árásirnar á vitræna umræðu eru komnar til að vera. 

Mig langar að lesa Russia Today. Ég vil kynna mér rússnesk sjónarhorn – þótt ég viti alveg jafn vel og góði dátinn Svejk að ég er hreinræktaður hálfviti, þá tel ég mig samt alveg geta horfst í augu við rússneskan áróður og rússneskt bull alveg eins og ég horfist í augu við vestrænan áróður og vestrænt bull í fjölmiðlum á hverjum einasta degi. 

Ég held að sú ákvörðun að banna rússneskar fréttir, rússnesk sjónarhorn, rússneskan áróður, hvað sem við viljum kalla það, sé mjög slæm hugmynd, þ.e.a.s. ef raunveruleg ósk okkar og markmið er að binda enda á þetta hryllilega stríð en ekki bara dást að Úkraínumönnum úr öruggri fjarlægð. Það er nokkuð ljóst að innrásin í Úkraínu á sér enga siðferðilega réttlætingu, þetta er algjörlega siðlaus og viðbjóðsleg innrás, sem fordæma skal skilyrðislaust, ekki ósvipað Íraksstríðinu. En það breytir því ekki að hún getur samt átt sér einhverjar lógískar rætur, það er hugsanlegt að þetta sé ekki bara eitthvað út í bláinn, ekki bara hreinræktuð geðveiki, illska og órar einræðisherrans. 

Það sem er siðlaust og illt getur samt sem áður átt sér eitthvert tilefni, einhverja sögu, einhverja ögrun, sem í þessu tilviki er auðvitað linnulaus útþensla NATO þvert á öll fyrri loforð inn í bakgarð Rússa, sem full ástæða er til þess að ræða. Það er full ástæða til þess að líta í eigin barm, það er það sem hugrakkt fólk gerir, og spyrja sig hvort maður hefði mögulega getað gert eitthvað betur eða öðruvísi, hvort mögulega hefði verið hægt að koma í veg fyrir þjáningar Úkraínumanna. Var virkilega nauðsynlegt að vera stanslaust að ögra þessu fólki, vígvæða hvert ríkið á fætur öðru í kringum það, aftur, þvert á öll loforð? Getur verið að þessi ofuráhersla á vígvæðingu sé ekki það sem kemur í veg fyrir stríð heldur það sem veldur því? Kannski er þitt svar Nei, kannski er þitt svar að útþensla NATO upp að landamærum Rússlands sé hið besta mál og það sé út í hött að gefa í skyn að hún hafi verið tilefni innrásarinnar – aftur, ekki réttlæting, heldur tilefni – kannski er þitt svar að þetta sé ekkert flókið, Pútín sé einfaldlega blóðþyrst illmenni, Hitler nútímans, og það megi ekki gefa þumlung eftir. Gott og vel. En það er ekki hægt að tala alltaf bara eins og busi í MH – fullorðið fólk verður að geta átt eðlilegar samræður um svona hluti og velt upp gagnrýnum spurningum án þess að að vera kallað Pútínistar … með fullri virðingu fyrir busum í MH, ég var einu sinni einn þeirra.

Í fréttum um helgina var sagt frá því að Þjóðaröryggisráð sé nú að meta þörfina á því hvort koma þurfi upp viðvarandi varnarliði á Íslandi, í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Jú, um að gera, frábær hugmynd, það mun pottþétt hjálpa mikið að vígvæða Ísland varanlega, þótt fyrr hefði verið, hver veit hvað Pútín gerir næst. Þá getum við líka loksins hætt að þykjast og slökkt á þessari vandræðalegu friðarsúlu þarna í Viðey.