Það voru miklar væntingar gerðar til hinna 19 ára gömlu Emmu Raducanu fyrir annað Wimbledon mót hennar. Frakkinn Caroline Garcia gerði sér þó lítið fyrir og sló út vonarstjörnu Breta örugglega, 6-3 og 6-3.
Leikurinn var í annari umferð Wimbledon, en Raducanu skaust eftirminnilega upp á stjörnuhimininn í fyrra er hún komst alla leið í fjórðu umferð. Þá vann hún US Open í fyrra, en undirbúningur hennar fyrir Wimbledon í ár var ekki með besta móti þar sem meiðsli spiluðu inn í.
"Caroline er frábær spilari. Ég átti erfitt með að finna leiðir fram hjá henni. En þetta er allt í lagi þar sem ég kom ekki inn í mótið með háar væntingar," sagði Emma.
Hin 28 ára gamla Garcia er hins vegar ekkert lamb að leika sér við, en hún vann nýverið mótið í Bad Homburg í Þýskalandi. "Ég undirbjó mig vel fyrir leikinn. Emma er frábær leikmaður og á heimavelli. Ég vann titilinn í Þýskalandi en maður verður að núllstilla sig algjörlega. Það er það góða við tennis. Við byrjum öll á núlli og verðum að gefa allt í þetta," sagði Caroline eftir leikinn. Garcia var í 55. sæti á heimslistanum fyrir leikinn en Raducanu í 11. sæti.