Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vítalía og Arnar kærð fyrir að reyna kúgun með sakburði

28.06.2022 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kæra þeirra Ara Edwald, Hreggviðs Jónssonar og Þórðar Más Jóhannessonar gegn Víta­líu Lazarevu og Arnari Grant fyrir til­raun til fjár­kúgunar, hótanir og brot gegn frið­helgi einka­lífs, er lögð fram á grundvelli þeirrar greinar almennra hegningarlaga sem varðar hótanir til að hafa fé af fólki. Vítalía bókaði tíma hjá lögreglu til að kæra meint kynferðisbrot þremenninganna, en veitti lögreglu engar frekari upplýsingar

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu fóru Vítalía og Arnar fram á samtals150 milljónir króna frá mönnunum þremur gegn því að Vítalía félli frá því að kæra þá fyrir kynferðisbrot sem hún segir að hafi átt sér stað í sumarbústað. 

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir að kæra þremenninganna hafi verið lögð fram á föstudag. Vítalía sagði frá því í hlaðvarpsþættinum Eigin konur í janúar að mennirnir hefðu brotið á henni kynferðislega í sumarbústað í Skorradal í október 2020. Í framhaldi af því létu mennirnir þrír af störfum sínum; Hreggviður vék úr stjórn Veritas og annarra fyrirtækja, Ari lét af störfum sem framkvæmdastjóri Íseyjar útflutnings og Þórður Már lét af stjórnarformennsku í Festi.

Í þættinum sakaði Vítalía ennfremur þekktan fjölmiðlamann, sem síðar var sagður vera Logi Bergmann, um að hafa brotið á sér á hótelherbergi. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur meint fjárkúgun ekki beinst gegn honum.

Í mars sagði Vítalía á Twitter að hún hefði bókað tíma hjá lögreglu til að kæra meint brot. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu mætti hún ekki í þann tíma og veitti lögreglu engar frekari upplýsingar um málið þrátt fyrir að á eftir því væri gengið. Þá herma heimildir fréttastofu að Vítalía hafi ekki bókað annan tíma hjá lögreglu og að engin kæra af þessu tagi hafi verið lögð fram.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er kæra þremenninganna byggð á 251. grein almennra hegningarlaga sem kveður á um að hver sem hefur fé af öðrum með því að hóta fólki eða vandamönnum þess ofbeldi eða að hafa uppi rangan sakburð eða annan sakburð, þó sannur sé, skuli sæta fangelsi allt að sex árum.

 251. gr.: Hver, sem hefur fé af öðrum með því að hóta manni að beita hann eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi, svipta hann eða þá frelsi, eða að hafa upp rangan sakburð um refsiverða eða vansæmandi háttsemi hans eða náinna vandamanna hans, eða annan slíkan sakburð, þótt sannur sé, ef nauðungin á ekki nægilegan rétt á sér vegna málefnis þess, er hótunin beinist að, eða loks með því að hóta honum að valda verulegum skemmdum eða eyðileggingu á eignum hans, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

Fréttastofa hefur ítrekað reynt að ná tali af málsaðilum; þeim Vítalíu, Arnari, Ara, Hreggviði og Þórði Má en ýmist hefur ekki náðst í þau eða þau ekki gefið kost á viðtali.