Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kæra Vitalíu og Arnar Grant fyrir kúgunartilraun

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Þrír menn á miðjum aldri sem sakaðir voru um kynferðisbrot gegn ungri konu í hlaðvarpsþætti í ársbyrjun eru sagðir hafa kært konuna fyrir tilraun til fjárkúgunar. Líkamsræktarþjálfari mannanna, sem átti í ástarsambandi við konuna, er einnig kærður fyrir aðild að kúgunartilrauninni. Fréttablaðið greinir frá.

Í frétt blaðsins segir að þeir Ari Edwald, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson, sem Vitalía Lazareva sakaði um kynferðisbrot í hlaðvarpsþættinum Eigin konur í ársbyrjun, hafi lagt fram kæru hjá embætti hérðassaksóknara á föstudag, þar sem þau Vítalía og Arnar Grant eru sökuð um tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífs.

Í kærunni eru rakin samskipti þremenninganna og Vítalíu í nóvember og desember 2021, áður en umrætt hlaðvarp fór í loftið, og fjöldi skilaboða og nafnlausra bréfasendinga til þeirra, barna þeirra, eiginkvenna og samstarfsfólks.

Engin kæra um kynferðisbrot lögð fram

Í Fréttablaðinu segir að þeir telji þetta sýna ásetning fjárkúgunar. Fram kemur í fréttinni að engin kæra hafi borist á hendur þeim fyrir kynferðisbrot, þvert á hótanir og fullyrðingar þar að lútandi.

Kærunni fylgir líka skjáskot af skilaboðum sem kærendur telja til vitnis um að hin kærðu hafi ætlað sér að krefja þá um háa fjárhæð, en í frétt blaðsins er tekið fram að þetta hafi ekki fengist staðfest. Ítarlega er fjallað um málið á vef Fréttablaðsins.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV