Gestir gerðust tjaldverðir þegar loka átti tjaldsvæðinu

Mynd: Jóhannes Jónsson / Sumarlandinn/RÚV

Gestir gerðust tjaldverðir þegar loka átti tjaldsvæðinu

28.06.2022 - 13:10

Höfundar

Hinrik Orri Thorsson og Kristófer Emil Blanco réðu sig í vinnu í álverinu á Reyðarfirði í sumar og ferðuðust nýverið austur alla leið úr Reykjavík. Það var ekki hlaupið að því að finna húsnæði á Reyðarfirði og því ákváðu þeir að tjalda á tjaldsvæðinu á Eskifirði til langs tíma. Þeir höfðu ekki verið þar lengi þegar í ljós koma að tjaldsvæðinu yrði lokað vegna þess að tjaldverðir fengust ekki.

Þeir félagar dóu ekki ráðalausir heldur réðu sig sem tjaldverði. Ungu mennirnir segjast alsælir með málalyktirnar enda fínasta aðstaða á tjaldsvæðinu og von á stríðum straumi ferðamanna í allt sumar. 

„Við náttúrlega sóttum bara strax um að verða tjaldverðir, við erum hérna konstant og við fengum djobbið," segir Hinrik Orri Thorsson. Rætt var við þá félaga í Sumarlandanum á RÚV.

Sumarlandinn kíkti á strákana þegar þeir voru í óða önn að undirbúa tjaldsvæðið fyrir sumarið. Verkefni tjaldvarða eru margvísleg; aðstaðan og svæðið verða að vera snyrtileg, það þarf að slá blettinn reglulega, merkja tjaldstaðina eftir kúnstarinnar reglum og síðast en ekki síst sjá til þess að öllum líði vel á tjaldsvæðinu í sumar.

Strákarnir hlakka til sumarsins og tjaldverunnar. Þeir segjast ætla að leita út fyrir hefðbundið verksvið tjaldvarða og koma á kopp einhvers konar afþreyingu fyrir gestina til dæmis að halda grillveislu eða annað í þeim dúr. Þeir vilja að það sé gaman á tjaldsvæðinu og ef þeir taka ekki af skarið og skipuleggja skemmtanir verða engar skemmtanir eins og þeir benda réttilega á. 

Undir trjám og í námunda við foss

Eins og sjá má í myndbrotinu hér fyrir ofan er tjaldsvæðið á Eskifirði nokkuð óhefðbundið. Í stað stórra grasflata þar sem heilu bíla- og hjólhýsaraðirnar komast fyrir er tjaldsvæði á Eskifirði allt ofan í laut og þakið trjám sem mynda hálfgert þak. Ekki einu sinni færustu ökumenn myndu treysta sér að bakka stóru hjólhýsi inn á milli trjánna. Það er enda sérstaklega útbúið fyrir minni tjöld, útilegu upp á gamla mátann. Búið er að ryðja jörðina þannig að flatir myndast milli trjánna þar sem tvö eða þrjú tjöld komast fyrir. 

Þegar út spurðist að félagarnir tvær hygðust gista á tjaldsvæðinu í sumar fóru að berast boð um gistingu hér og þar í firðinum og víðar. Þeir segjast þó alsælir og vilja vera um kyrrt, enda sé hvergi betra að vakna en undir þykkum trjágróðrinum og við fuglasöng og niðinn í Bleiksárfossi.

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum.