Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fyrstu lotu Borgarlínunnar frestað um ár

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Framkvæmdum fyrstu lotu Borgarlínunnar hefur verið seinkað um eitt ár. Samkvæmt nýjum áætlunum verður fyrsti hluti Borgarlínunnar nú tekinn í notkun árið 2026 en áður var reiknað með að hann yrði tilbúinn 2025. Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, segir að margt valdi seinkun á framkvæmdum. Áætlunin sem nú hafi verið gefin út sé raunhæfari en sú fyrri. Hann vonar að ekki verði frekari tafir á framkvæmdinni.

„Eftir því sem að verkefninu vindur fram þá fækkar óvissuþáttum og áætlanir verða nákvæmari. Nú er verið að uppfæra tímaáætlun fyrir fyrstu lotu. Leggurinn frá Hamraborg niður í miðbæ Reykjavíkur seinkar um eitt ár.“

Margt hafi áhrif á áætlanir

Davíð segir að skýringarnar séu ýmsar, verkefnið sé tæknilega flókið en fyrst og fremst að fyrstu áætlanir hafi verið óraunhæfar. „Það þarf að samræma þetta öðrum framkvæmdum. Á framkvæmdatímanum mun þetta valda nokkrum umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu. Við þurfum að samræma þetta við til dæmis  framkvæmdum á stokkunum á Miklubraut og Sæbraut og svo framvegis. Þannig það er ýmislegt sem veldur því að áætlanir eru að breytast. Þetta er ekki ákvörðun sem er tekin að fresta heldur er þetta afleiðing af aðstæðum.“ 

Framkvæmdir við Fossvogsbrú hefjast í haust

Borgarlínan samanstendur af nokkrum lotum. Framkvæmdir við Fossvogsbrú hefjast á þessu ári og verður lokið 2024 en hverri og einni framkvæmd Borgarlínunnar verður skilað til sveitarfélaga eða Vegagerðarinnar til rekstrar. Hver leggur muni því byrja að nýtast strax þó að Borgarlínan byrji ekki að keyra á þeim fyrr en 2026. Davíð segist bjartsýnn á að ný framkvæmdaáætlun standist og fyrsta lota verði tilbúin eftir fjögur ár.„Þetta er talsvert raunhæfari áætlun en sú fyrri og ég bind miklar vonir við að þetta standist. “

Í frétt sem birtist á vef Borgarlínunnar í dag er gert grein fyrir þessum töfum á framkvæmdinni. Segir þar að líkt og upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir muni vagnar Borgarlínunnar hefja akstur árið 2025 á akstursleiðinni Hamraborg – HÍ. Davíð segir þó að þetta sé rangt og það eigi eftir að uppfæra upplýsingarnar. Akstur hefjist ekki fyrr en 2026. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna.