Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Engin kæra frá Vítalíu í lögreglukerfinu Löke

28.06.2022 - 09:10
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Víta­lía Lazareva og Arnar Grant hafa verð kærð til héraðs­sak­sóknara fyrir til­raun til fjár­kúgunar, hótanir og brot gegn frið­helgi einka­lífs. Lögmaður Hreggviðs segir í samtali við Fréttastofu RÚV að aldrei hafi borist kæra frá Vítalíu vegna kynferðisbrots. Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Þórðar, segist hafa staðfesingu ríkislögreglustjóra að ekkert kynferðisbrot sé í lögreglukerfinu Löke gegn mönnunum þremur.

Fréttablaðið greinir frá því í dag að þeir Ari Edwald, Hregg­viður Jóns­son og Þórður Már Jóhannes­son hafi lagt kæruna fram á föstudag.

Eva B. Helgadóttir, lögmaður Hreggviðs, staðfestir í samtali við Fréttastofu RÚV að hann hafi kært málið. Vítalía sagði frá því í hlaðvarpsþættinum Eigin konur í janúar síðastliðnum að mennirnir hefðu brotið á henni kynferðislega í sumarbústað í Skorradal í október 2020. Samkvæmt frétt Fréttablaðsins hófu Vítalía og Arnar tilraunir til fjárkúgunar rúmu ári seinna.

Hefur eytt Twitter-aðgangi

Vítalía birti 22. mars síðastliðinn mynd á Twitter af því að hún hefði bókað tíma hjá lögreglu og meðfylgjandi texti var að í dag væri stór dagur fyrir hana og vonandi fyrir betra samfélag. Færslan var túlkuð sem hún hygðist leggja fram kæru á hendur mönnunum þremur.

Eva segir hins vegar í samtali við Fréttastofu að hafa fengið staðfestingu á því að Vítalía hafi aldrei lagt fram kæru  á hendur mönnunum fyrir kynferðisbrot. Vítalía hefur síðan þetta var, eytt Twitter-aðgangi sínum. Mannlíf greindi frá því 9. júní að hún væri hætt á öllum samfélagsmiðlum. Fréttastofa náði því ekki sambandi við Vítalíu í morgun. Þá hefur Arnar Grant ekki svarað símtölum fréttastofu.

Ekkert brot inni í Löke

Arnar Þór Stefánsson er lögmaður Þórðar Más. Hann segir að óskað hafi verið eftir upplýsingum frá ríkislögreglustjóra um það hvort kæra hafi borist frá Vítalíu fyrir meint kynferðisbrot. Hann hafi það staðfest frá ríkislögreglustjóra að enginn mannanna þriggja sé með kæru inni í lögreglukerfinu Löke. 

Nú bíða mennirnir þrír þess að lögregla rannsaki málið. Arnar segir að rannsókn lögreglu taki langan tíma. Það sé kerfislægur vandi. Rannsókn lögreglu geti tekið 18-24 mánuði. Það sé einn helsti galli í réttarkerfinu í dag að rannsókn sakamála taki óratíma. „Afleiðingin af er sé að dómstóll götunnar tekur við og það er skelfilegt fyrir réttarríkið,“ segir Arnar Þór í samtali við Fréttastofu RÚV.

Í þættinum Eigin konur sakaði Vítalía jafnframt þekktan fjölmiðlamann um að hafa brotið á sér hótelherbergi í golfferð. Fram kom í fjölmiðlum að sá maður væri Logi Bergmann. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur ekki verið reynt að kúga fé út úr Loga. 

Fréttin hefur verið uppfærð með viðbótarupplýsingum.