Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Saka Litáa um gróf mannréttindabrot gegn flóttafólki

epa09428103 Migrants in the tent camp close to the Lithuania - Belarus border near Medininkai, Lithuania, 24 August 2021. More than 4,000 migrants have entered Lithuania illegally from neighbouring Belarus so far this year.  EPA-EFE/VALDA KALNINA
Kona í gættinni á tjaldi í flóttamannabúðunum Medininkai í Litáen, þar sem fólk býr í tjöldum og gámum innan girðingar sem vandlega er gætt af öryggisvörðum. Amnesty International segir búðirnar í raun ómannúðlegar fangabúðir þar sem fólk býr við ofbeldi og yfirgang og mannréttindi þess eru fótum troðin Mynd: epa
Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty International gagnrýna stjórnvöld í Litáen harðlega fyrir forkastanlega meðferð þeirra á flóttafólki og margvísleg, alvarleg brot gegn mannréttindum þess. Í nýrri úttekt samtakanna eru Litáar sakaðir um að halda fólkinu nauðugu í lokuðum flóttamannabúðum við ömurlegar aðstæður þar sem það sætir illri meðferð, misþyrmingum og jafnvel hreinum pyntingum.

Skýrsla Amnesty er afrakstur vettvangsferða og viðtala útsendara samtakanna við fjölda flótta- og förufólks í flóttamannabúðum í Litáen. Fólkið er flest frá Miðausturlöndum og Afríku sunnan Sahara. Það var flutt að landamærum Litáens og Hvíta Rússlands fyrir tilstilli hvítrússneskra yfirvalda í fyrra og hitteðfyrra og smalað yfir landamærin.

Þar beið þeirra þó hvorki frelsi né opinn faðmur, heldur nauðungarvist við ómannsæmandi aðstæður. Í skýrslu Amnesty segir að vonbrigði fólksins og reiði vegna þessarar illu meðferðar hafi magnast til muna þegar það varð vitni að þeim gjörólíku móttökum sem úkraínskt flóttafólk fékk þegar það byrjaði að streyma yfir landamærin í lok febrúar.

Mótmæli barin niður af mikilli grimmd

Þegar fólkið lét þessa reiði og vonbrigði í ljós í sjálfsprottnum mótmælum 1. mars brugðust litáísk yfirvöld við með því að senda sveitir óeirðalögreglu í búðirnar til að berja þau niður.

Konur og karlar í búðunum lýstu því síðar fyrir útsendurum Amnesty, hvernig lögregla og verðir í búðunum börðu þau með hnefum og kylfum, stuðuðu þau með rafbyssum, handjárnuðu þau og drógu út úr „herbergjum“ sínum í lítlfjörlegum gámahýsunum sem þú búa í, og hvernig þeir niðurlægðu hóp svartra kvenna kynferðislega þegar þeir drógu þær út í kuldann, hálfnaktar og með bundnar hendur, og svona má áfram telja.

 

„Í Írak, þar heyrum við um mannréttindi og kvenréttindi í Evrópu. En hérna eru engin réttindi.“           – Dilba, ung kona frá Írak sem haldið er nauðugri í Medininkai-flóttamannabúðunum í Litáen, mars 2022. 

 

Bæði þolendur og vitni að þessum hrottalegu aðförum lögreglunnar lýstu líkamlegum og andlegum afleiðingum þeirra fyrir útsendurum Amnesty og spurðu sig enn og aftur þeirrar áleitnu spurningar, hvers vegna farið væri með þau eins og skepnur á sama tíma og fólkið sem flúði stríðið í Úkraínu fengi hlýjar og höfðinglegar móttökur.

Mörg og gróf mannréttindabrot

Í skýrslunni er farið ýtarlega yfir þá ómannúðlegu meðferð sem flóttafólkið sem kom frá Hvíta Rússlandi hefur sætt af hendi litáískra landamæravarða, lögreglu, öryggissveita, starfsfólks hinna lokuðu flóttamannabúða, lögfræðinga og annarra fulltrúa litáískra og evrópskra yfirvalda.

Á meðal þeirra fjölmörgu brota gegn mannréttindum flóttafólksins sem rannsakendur Amnesty komust á snoðir um eru pyntingar og aðrar misþyrmingar, svo sem kynferðislegt ofbeldi og niðurlæging, óhófleg valdbeiting og ofbeldi, þar sem hundar voru jafnvel notaðir.

Einnig geðþóttalegar fangelsanir í viðbjóðslegum og heilsuspillandi rýmum, neitun um aðgengi að öruggu hæli, skortur á áreiðanlegri lögfræðiaðstoð vil hælisumsóknir, sem sýndu sig í að vera blekkingarleikur einn, og ekkert aðgengi að raunverulegum og skilvirkum lagalegum úrræðum.

Rasískar svívirðingar og áreitni

Einnig kemur fram að fólk sem tilheyrir minnihlutahópum, sérstaklega svartar konur og karlar, hafi sætt aðdróttunum, svívirðingum, hótunum og áreitni af rasískum toga af hálfu öryggisvarða í búðunum og geri enn.

Þá eru fjölmörg dæmi um að landamæraverðir hafi hrakið fólk sem komið var yfir til Litáens aftur yfir landamærin til Hvíta Rússlands af hörku, í trássi við Alþjóðlög og reglur Evrópusambandsins.