Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ölvið ykkur viðstöðulaust

Mynd: Dani Canto / Primavera Sound

Ölvið ykkur viðstöðulaust

27.06.2022 - 14:10

Höfundar

Samkomur af þessu tagi hafa lengi haft yfir sér útópíska áru yfirgengilegs frelsis, taumlausrar nautnadýrkunar og hömlulauss gáska þar sem allt er leyfilegt, segir Davíð Roach Gunnarsson um tónlistarhátíðina Primavera Sound sem fór fram í Barcelona á dögunum.

Davíð Roach Gunnarsson skrifar:

Ágætu lesendur, covid er búið. Skýrasta dæmið um það eru risastórar tónlistarhátíðir sumarsins sem eru komnar aftur á dagskrá. Ég sótti eina þá fyrstu og eina þá stærstu í Evrópu á dögunum, Primavera Sound í Barcelona.

Samkomur af þessu tagi eiga rætur sínar að rekja til hinnar goðsagnakenndu Woodstock-hátíðar sem var haldin árið 1969. Þær hafa lengi haft yfir sér útópíska áru yfirgengilegs frelsis, taumlausrar nautnadýrkunar og hömlulauss gáska þar sem allt er leyfilegt. Veislan stóð frá fimmtudegi til laugardags í því sem heitir Parc Del Fórum, eins konar almenningsgarði í útjaðri Barcelona. Hún byrjaði því miður á skelli, þegar stórt skarð var höggvið í dagskrá hátíðarinnar með tilkynningu um að New York-rokksveitin Strokes neyddist til að aflýsa tónleikum sínum. 

En við reyndum að láta það ekki á okkur fá og mættum á hátíðarsvæðið um kvöldmatarleytið á fimmtudaginn og sáum fyrst bandarísku tónlistarkonuna Sharon Van Etten flytja 80’s-skotna indítónlist af öryggi og innlifun. Gömlu nýbylgjubrýnin í Dinosaur Jr. rokkuðu án afláts í rafmagnsgítarþungri keyrslu sem var troðfull af feedback-fimleikum og pedala-æfingum. En fyrsta eftirvæntingin og stóra nafnið í okkar bókum var samt ástralski sýrurokkarinn Kevin Parker sem er innsti mótor í Tame Impala. 

Tónlistarhátíðum eins og Primavera Sound fylgir ákveðið hömluleysi og karnívalstemming, þar sem reglur siðmenntaðs samfélags eru teknar úr sambandi, og ef menn vilja vera háfleygir, sem ég vil gjarnan, væri hægt að ímynda sér þessar ljóðlínur franska þjóðskáldsins Baudelaire væru einkunnarorðin:

Ölvið ykkur
Við eigum sífellt að vera ölvuð. Allt er undir því komið: það eitt skiptir máli. Ef þið viljið ekki finna ógnarhramm tímans leggjast á herðar ykkar og sliga ykkur í duftið, þá verðið þið að ölva ykkur viðstöðulaust. En með hverju? Víni, skáldskap eða dyggðum, eftir geðþótta ykkar. En ölvið ykkur. 

Eftirvæntingin eftir Tame Impala var nefnilega því sem næst þuklanleg og sífellt bættist í beljandi mannhafið sem ölvaði sig viðstöðulaust með víni, tónlist eða … líklega dópi frekar en dyggðum, en kannski bara öllu heila klabbinu. Kevin Parker er óheflað náttúrutalent sem nær að miðla sýruleginni síkadelíu sjöunda áratugarins á grípandi og nútímalegan hátt, þannig að tugþúsundir koma til að berja hann augum og syngja með. Hann byrjaði rólega þetta kvöld en gaf í eftir sem á leið og í fimmta laginu, Elephant, var farinn að bærast innra með mér hamingjustraumur sem fljótlega varð að næmisöldu sem skolaðist yfir mig allan. 

Hittaraþéttnin jókst svo mjög eftir því sem leið á síðari hluta settsins og sjónarspilið var keyrt í botn; reykjarþoka þakti hljómsveitina, sveimandi hringur yfir þeim minnti á geimskip, yfirgengileg litadýrð, leysigeislar skjótast í allar áttir af sviðinu, og í gegnum allt sker dúndurmjúk rödd Kevins Parkers, sem minnir ekki lítið á Lennon. Allt ætlaði svo um koll að keyra í fyrsta uppklappslaginu þegar Parker keyrði í ábreiðu á Strokes-slagaranum Last Night, júforískt móment þar sem allir sungu með og örlítil sárabót fyrir Strokes-tónleikana sem var aflýst.

Eftir Tame Impala var röðin komin að sveitinni Pavement sem er leidd af Stephen Malkmus sem er í guðatölu hjá þeim sem voru að uppgötva indírokk á öndverðum tíunda áratugnum. Þeir fóru á kostum í svaðalegri rokk-keyrslu og dældu út hitturunum síðasta hálftímann eða svo við haftalaus fagnaðarlæti indíhausanna sem sungu með án afláts. Klukkan var svo orðin rúmlega þrjú um nótt þegar aldna plötusnúða-hetjan DJ Shadow tók sér stöðu bak við spilarana og spilaði sína sérstöku tegund af hiphoppi. Hann var kominn á blússandi siglingu í lokalaginu Organ Donor sem hann teygði og togaði í margar mismunandi áttir.

Beck á betri skónum

Gamli íkonóklastinn og vísindakirkjupresturinn Beck var fyrsta atriðið á okkar dagskrá á föstudagskvöldið og hann mætti til leiks í hvítum jakkafötum og á betri skónum. Settið hans var hresst, hipphopp-skotið og hlaðið crowdplísandi slögurum af fyrri hluta ferilsins, með hárkollu satans og öllu tilheyrandi. En hann tók líka rólegan millikafla með góðum Sea Change lögum og einu af mínum uppáhalds, Everybody’s Gotta Learn Sometimes, áður en hann henti sér aftur í partýgallann með Loser og Where It’s At undir lokin, og fór eiginlega alveg fram úr mínum björtustu heilt yfir. 

Eftir Beck stóð ég á hliðarlínunni meðan bandaríska indírokksveitin The National dró að sér stærsta crowd hátíðarinnar til þessa. Þeir hafa unnið með Ragnari Kjartanssyni og eru í gríðarmiklum metum hjá mjög mörgum en ég hef einhverra hluta vegna aldrei dottið inn í þá, en þeir voru samt mjög góðir þetta kvöld. Ég var hins vegar að bíða eftir því að stærðfræðiséníið og Íslandsvinurinn Caribou tæki sér stöðu með hljómsveit á sviðinu við hliðina á, en tvö stærstu svið hátíðarinnar eru við hliðina á hvort öðru þannig nánast engin bið er á milli stærstu númeranna.

Sælan sprautaðist út í nóttina

Caribou ræktar sitt eigið afbrigði af lífrænni danstónlist og matreiðir af gríðarmiklum gáska og listfengi á tónleikum, hann syngur og spilar á hljómborð ásamt trommuleikara og öðrum gítar- og hljómborðsleikara, en þegar leikar standa hæst sest hann sjálfur við annað trommusett og tvímennir taktinn. Það voru extatískir hápunktar í lögunum, Sun, You Can Do It og lokalaginu Can’t Do Without You, og gleðin hreinlega fossaði af sviðinu. Sælan hélt svo áfram þegar að Jamie xx byrjaði á sviðinu við hliðina á stuttu seinna og sprautaðist út í nóttina áður en hún sjatnaði í langri lestarferð á leiðinni heim eftir vel heppnað kvöld.

Við byrjuðum lokakvöldið á Nick Cave sem kom eiginlega á óvart að hefði spilað á hátíðinni yfir höfuð, þar sem sonur hans lést úr of stórum skammti eiturlyfja, 31 árs gamall, innan við mánuði fyrir tónleikana. Nick Cave er náttúrulega stórkostlegur show-maður, alltaf í svörtum jakkafötum með hárið sleikt aftur, og sviðsframkoman minnir helst á evangelískan predikara. Bandið hans Bad Seeds er óaðfinnanlegt og bakraddirnar voru í miklum gospel-gír. Hann tileinkaði lagið „I Need You“ strákunum sínum, Luke og Earl, en annar sonur Cave lést einnig fyrir nokkrum árum aðeins fimmtán ára gamall, og sagði að þeir væru örugglega á hinu sviðinu, að bíða eftir að Bauhaus byrjuðu. Cave var skiljanlega í nokkuð rólegum gír á tónleikunum en ég tók hann á orðinu og kíkti á Bauhaus, sem hefur verið titlað fyrsta goth-bandið.

Ég hef aldrei hlustað almennilega á Bauhaus en samt alltaf þótt Bela Lugosi’s Dead alveg suddalega töff lag. Bauhaus voru starfandi frá ca ‘78 til ‘83 og hafa svo komið saman aftur af og til síðustu 20 ár. En fílíngurinn á tónleikunum var alls ekki eins og gamlir fauskar að fróa sér á fornri frægð, heldur OG’s, Original Gotharar, sem höfðu aldrei farið neitt og voru ennþá með’etta. Ég náði að sjá slagarann Bela Lugosi’s Dead en allt hitt sem þeir spiluðu hljómaði mjög töff líka og ég hef einsett mér að sökkva mér betur ofan í Bauhaus.

Breska plágan

Mig hafði langað til að sjá Gorillaz í tæpa tvo áratugi og finnst eiginlega ennþá hálfgerður skandall að íslenski ríkisborgarinn Damon Albarn hafi aldrei komið með þetta stærsta verkefni sitt til að spila á ástkæru Ísafold. Mesti troðningur hátíðarinnar varð í upphafi tónleika Gorillaz og Damon dembdi sér í mörg elskuð lög frá upphafsárum sveitarinnar. Fyrir Damon Albarn er menningarnám lögmál frekar en last, og öll hljómsveitin hans og langflestir gestirnir hans var fólk dökkt á hörund, en þar á meðal var risastórt brassband og rappararnir Mos Def og Booty Brown áttu sterkar innkomur í Stylo og Dirty Harry. En frábærir tónleikar þar sem spilagleðin var í fyrirrúmi þó ég saknaði vissulega slagarans Dare. 

Rapparinn Tyler The Creator var næstur á stórt svið þar sem hann dansaði og rappaði í pimpuðum pelsi á íburðarmikilli leikmynd en mér þótti kraftinum eilítið ábótavant, og breska dansdúóið Disclosure lokaði hátíðinni á full poppuðum nótum fyrir minn smekk. Þá mætti líka minnast á ákveðna plágu sem ásækir tónlistarhátíðir af þessari tegund, sem eru sauðdrukknir Lads-Bretar, sem tekst að umbreyta góðum og gildum lögum í dududu-fótboltabullu-chants, eins og Seven Nation Army hefur verið eyðilagt. Þegar rólegt og fallegt lag eins og Melancholy Hill með Gorillaz byrjar að óma langar mig alls ekki að heyra mörg þúsund breska lads öskra “Du Du - Dududududu Du Du-a” með því.

En hátíðin var heilt yfir stórkostleg skemmtun, og það er geipileg gleði sem felst í því að mæta aftur á blygðunarlaust nautnasvall 200 þúsunda þar sem tónlist og gleði eru einu markmiðin og engar sóttvarnir í augsýn.