Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Látin eftir að hús sprakk í loft upp í Birmingham

27.06.2022 - 11:19
Erlent · Bretland · England · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: Slökkvilið West Midlands - BBC
Kona lést eftir gríðarlega gassprengingu sem gjöreyðilagði íbúðarhús í Birmingham á Englandi í gærkvöld, og olli skemmdum á nærliggjandi húsum. Þá er einn alvarlega slasaður eftir sprenginguna, en bæði voru inni í húsinu þegar sprengingin varð. Fjórir einstaklingar sem voru í nágrenninu særðust einnig, en ekki alvarlega.

Lögregla og slökkvilið voru kölluð að íbúðarhúsi í Kingstanding-hverfi í norðanverðri Birminghamborg um klukkan hálf níu í gærkvöld. Sprengingin var afar öflug og bæði heyrðist og fannst víða um borg. Á myndum og myndskeiðum á samfélagsmiðlum og vef Birmingham Mail mátti sjá eld og reyk leggja frá húsinu og brak úr því á víð og dreif.

Rannsókn hefur leitt í ljós að um gassprengingu var að ræða, en ekki hvers vegna hún varð. Rannsókn á tildrögum sprengingarinnar verður því haldið áfram. Nærliggjandi hús voru rýmd eftir sprenginguna, og skemmdust nokkur þeirra töluvert, samkvæmt frétt BBC.

 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV