
Hvetur til tortryggni í samskiptum á netinu
Undanfarið hafa Íslendingar lent í því að þjófar steli aðgangi þeirra að samfélagsmiðlum, og þegar þjófarnir hafa aðgang að einum miðli senda þeir skilaboð á tengiliði í gegnum messenger. Brynja Baldursdóttir er ein þeirra sem lent hefur í slíkum stuldi. „Þá fæ ég skilaboð frá facebook vini sem að biður mig um símanúmerið, mér fannst það ekki svo ósennilegt að það væri að koma frá henni. Þá koma einhver svona skilaboð um að við höfum verið að vinna vinning og þá svara ég strax að þetta sé nú „scam“ og ég ætli ekki að taka þátt í því. Daginn eftir fer síminn að hringja og mér er bent á að það séu bara stöðugar sendingar frá mér þar sem ég er að biðja um símanúmer og ýmislegt annað.“
Þegar Brynja uppgötvaði að búið væri að stela aðganginum hennar gat hún ekki skráð sig inn á hann lengur þar sem lykilorðið virkaði ekki. Aðgangurinn var nú nýttur til að herja á vini hennar. Hún veit til þess að allavega einn vinur, sem í góðri trú taldi sig vera að ræða við hana, hafi tapað hundruðum þúsunda eftir samskiptin. Hún segir þetta gerast mjög hratt, hennar aðgangur sé enn að senda fólki skilaboð og nú líka aðgangar þeirra sem svarað hafi hennar skilaboðum. Hún segir samtölin vera á íslensku og mjög trúverðug. „Þetta var bara ekki eins og google translate, þetta var miklu betri íslenska,“ segir Brynja.
Guðmundur Arnar Sigmundsson forstöðumaður netöryggissveitarinnar CERT-IS brýnir fyrir fólki að virkja tvöfalda auðkenningu og nota einstök lykilorð. Hann bendir í því samhengi á sérstaka lykilorðabanka eða password keepers. Það eru smáforrit sem hjálpi fólki að halda utanum einstök lykilorð. Þá sé alltaf gott að vera tortrygginn gagnvart skilaboðum sem þessum og senda ekki banka- eða kortaupplýsingar í gegnum samskiptaforrit.