Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hunsuðu tilmæli lögreglu

Mynd: EPA / EPA
Þúsundir mættu á samstöðuhátíð á Ráðhústorginu í Osló höfuðborg Noregs síðdegis, þvert á ráðleggingar lögreglu, sem telur hryðjuverkaógn enn mikla eftir mannskæða árás um helgina.

Til stóð að halda hinsegin göngu í Noregi á laugardag en henni var aflýst eftir að maður skot tvo til bana og særði tuttugu aðfaranótt laugardags. Ákveðið var að halda samstöðufund síðdegis í dag, til stuðnings hinsegin samfélaginu í Noregi, en honum var aflýst eftir tilmæli lögreglu um að fresta skyldi öllum slíkum viðburðum af öryggisástæðum um óákveðinn tíma. Lögregla óttast að einhver fremji voðaverk líkt og um helgina. Hún taldi sig ekki geta tryggt öryggi gesta samstöðufundarins. 

Engu að síður mættu nokkur þúsund manns á Ráðhústorgið síðdegis. Margir lögðu einnig leið sína að barnum þar sem skotárásin var framin um helgina. Árásin er rannsökuð sem hryðjuverk og er einn í haldi lögreglu.