Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hitastig ekki verið lægra á þessum árstíma í 30 ár

27.06.2022 - 13:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Óvenju kalt hefur verið síðustu fjóra sólarhringa miðað við árstíma, sérstaklega á Akureyri þar sem hitastig hefur ekki verið lægra á þessum tíma árs síðustu þrjá áratugi.

Óvenjuleg kuldatíð hefur ríkt frá því fyrir helgi. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur á Veðurvaktinni, vekur athygli á þessu í færslu á Facebook-síðu sinni. Hann segir Ísland lenda mitt á milli hlýinda beggja vegna Atlantshafsins.

Trúlega sé þetta jafnframt kaldasti kaflinn sem gerir eftir sólstöður, 21. júní, á þessari öld. Meðalhiti á Akureyri fór ekki yfir sex gráður um síðustu helgi.

„Þetta er auðvitað tilviljun sem ræður mestu. Það er kalt loft hér norðvestur undan sem að er gjarnan á þessum árstíma og fram á sumarið en það bara var þrálátt, beindist hingað til okkar og fór saman með norðanátt sem kom frá heimskautasvæðum og þess vegna varð svona kalt,“ segir Einar í samtali við fréttastofu.

Kuldatíðin sé yfirstaðin

Hann segir óvenju hlýtt hafi verið beggja vegna Atlantshafsins, á milli hafi þó verið kaldara loft sem þrengi sér til suðurs og Ísland sé á því svæði.

„Næstu daga er hitinn nú heldur að potast upp á við og við verðum nær því, eins og ég segi, en við svona eigum að venjast á þessum árstíma. Svo sem engin sérstök hlýindi en hitinn kannski tíu til fimmtán stig heldur en að vera fimm til tíu.“

Einar segir að til lengri tíma litið séu horfur frekar óljósar en þessi kaldi kafli sé yfirstaðinn.