Tónlistarmaðurinn víðkunni, Bubbi Morthens, hefur farið nokkra hringi í kringum landið og spilað á öllum félagsheimilum sem fyrirfinnast. Bubbi ræðir við þá Sigurð Þorra Gunnarsson og Friðrik Ómar Hjörleifsson í Félagsheimilinu á Rás 2 og svarar 20 spurningum sem enginn vill svara.
Spiluðu í fjóra klukkutíma fyrir einn mann
Líkt og áður segir hefur Bubbi komið víða við og haldið tónleika og böll í félagsheimilum landsins. „Ég var samt mjög fljótur að vilja ekki spila á böllum,“ segir Bubbi. „Bæði út af því að ég var svona með egó. Ég leit ekki stórt á mig en mér fannst einhvern veginn að lögin mín ættu bara að vera þannig að fólk hlustaði og meðtæki.“
„Utangarðsmenn spiluðu í félagsheimilum en það kom enginn,“ segir Bubbi. „Fyrsti túrinn var á Húsavík. Ég held að það hafi komið tíu til tuttugu manns.“ Eitt sinn spiluðu þeir í félagsheimili á Melrakkasléttu og þar mætti einn áhorfandi. „Það var skólastjórinn á Kópaskeri, Pétur Þorsteinsson. Hann sagði að þetta væru bestu tónleikar sem hann hefði komið á síðan hann heyrði í Óðmönnum 1963,“ segir Bubbi og hlær. Þeir spiluðu fyrir skólastjórann í fjórar klukkustundir, hvorki meira né minna. „Við vorum hvort sem er með húsið, hvað áttum við að gera?“
„Flaska sett á borðið og svo var bara drukkið og slegist“
„En ég á minningar með GCD, það var rosalegt. Þá troðfylltum við hvert einasta félagsheimili sem við komum í og settum aðsóknarmet,“ segir Bubbi og þótti það virkilega gaman. „En einhvern veginn þykir mér og hefur alltaf þótt skemmtilegra að spila tónleika.“
„En ég skil og finnst þetta bara fallegt, félagsheimilin og sveitaböllin. Ég sakna þessara tíma,“ segir hann og minnist þess þegar hann var á vertíð í gamla daga. „Þá voru bara tvær harmónikkur uppi á sviði. Svo var sett flaska á borðið og svo var bara drukkið og slegist og síðan var tekinn polki og ræll.“