Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Breiðin á Akranesi verður íbúða - og atvinnubyggð

Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson / RÚV
Lifandi samfélag við sjó er heiti vinningstillögu í hönnunarsamkeppni fyrir syðsta hluta Akraness. Þróunarfélag bæjarins og stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins efndu til samkeppninnar. 

Yst á Akranesi er líklega að sumum finnst fallegasta byggingarlandið á Skaganum og þó víðar væri leitað. Það heitir Breiðin. Heilir fimmtán hektarar verða skipulagðir upp á nýtt. Þótt starfsemi sé í mörgum húsanna ennþá þá má þetta athafnasvæði sjávarútvegsins muna fífil sinn fegurri. 

„Við erum búin að sjá kannski á síðustu þrjátíu árin að atvinnustarfsemi er alltaf að ganga í gegnum ákveðnar nýjungar,“ segir Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims hf. 

Sumir urðu sárir þegar HB Grandi fór héðan en þú ert ekkert alveg sammála því?

„Ég held að HB Grandi eða Haraldur Böðvarsson og núna Brim, við erum hérna en við erum ekki að gera það sama og fyrir 10, 20, 30, 40 árum. En Brim ætlar að vera áfram öflugt hér á Akranesi og við erum búin að ákveða að taka þátt í samfélaginu,“ segir Guðmundur, „þetta svæði, Breiðin, þú ert með útsýni í allar áttir og þetta er bara stórkostlegt svæði til að vera á bæði að vinna og búa.“

Þannig stofnuðu Brim hf. og Akraneskaupstaður þróunarfélagið Breið sem efndi til hönnunarsamkeppninnar í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. 24 tillögur bárust og nam verðlaunaféð tæpum 25 milljónum króna. Arkþing/Nordic og EFLA verkfræðistofa urðu hlutskörpust. 

„Tillagan gengur út á það að skapa eftirsóknarvert svæði og hverfi sem styður við nýsköpun og framþróun á Akranesi,“ segir Jóhanna Helgadóttir arkitekt og skipulagsfræðingur hjá Arkþing/Nordic.

Þið eruð að nota flest húsin sem hérna standa fyrir?

„Já, það var okkur mikilvægt að huga að umhverfinu og umhverfismálum og nýta þannig þann efnivið sem er til staðar. Þannig að við gerum það á mjög fjölbreyttan máta, bæði með því að gera upp hús eða að gefa þeim nýtt notagildi eða jafnvel bara að færa þau í upprunalegt horf.“

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar segir að í vinningstillögunni séu möguleikar á að nýta strax þær perlur sem séu í byggingum á svæðinu:

„En sömuleiðis munum við sjá hér á næstu árum byggjast upp hérna alveg mögnuð framtíðarsýn fyrir svæðið.“

Sævar Freyr að þegar hafi tekist að landa á Breiðina nýsköpunarfyrirtæki í loftslagsmálum og að þau sjái fyrir sér þarna verði líka rannsóknarfyrirtæki í sjávarútvegi og heilsutengd ferðaþjónustu en baðströnd er einmitt hluti af vinningstillögunni. 

Og það er skipulagstillaga nú í kynningu?

„Já, skipulag núna í kynningu og við munum vonandi sjá okkar drauma rætast hér á næstu misserum,“ segir Sævar Freyr. 

Á morgun klukkan fimm er íbúafundur á Akranesi um uppbyggingu á Breiðinni. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson - RÚV
Frá sýningu tillagnanna í dag.