Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Telur tímabil vaxtahækkana hafið í Evrópu

26.06.2022 - 19:23
Mynd: RÚV / RÚV
Fyrrverandi fulltrúi í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands telur að tímabil vaxtahækkana sé hafið í Evrópu. Vextirnir hér á landi eru þeir hæstu á Norðurlöndum, þrátt fyrir að öll löndin glími við svipaða verðbólgu.

Seðlabanki Íslands hækkaði á miðvikudag stýrivexti um eitt prósentustig, upp í 4,75%, til að ná tökum á verðbólgu, sem er 7,6% hér á landi. Verðbólgudraugurinn er þó ekki aðeins á sveimi hér, heldur hrellir hann ríki víða um heim.

Talsverð verðbólga mælist hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndunum og á Bretlandseyjum. Verðbólga er minnst í Noregi, 5,7% en mest í Bretlandi, 9,1%. Í samanburði við nágrannana eru stýrivextir langhæstir hér á landi. Stýrivextir eru neikvæðir í Danmörku. Gengi dönsku krónunnar er beintengt við gengi evrunnar og Evrópski seðlabankinn hefur enn sem komið er ekki hækkað vexti sína. 

Vaxtahækkanir framundan

Katrín Ólafsdóttir, sem átti sæti í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, segir viðbrögð seðlabanka nágrannalandanna við aukinni verðbólgu hafa verið misjöfn, en flestir hafi hafið vaxtahækkunarferli.

„Ástæðan fyrir því að íslenski seðlabankinn fór fyrr af stað var sú að hinir seðlabankarnir voru flestir með mjög víðtækt kerfi við uppkaup á skuldabréfum. Þannig að vextirnir voru komnir mjög langt niður fyrir covid. Þeir gátu ekki farið lengra með vextina þannig að þeir fóru út í það að kaupa skuldabréf. Það er ekki fyrr en núna sem þeir sjá ástæðu til þess að geta byrjað að hækka vexti. Íslensku vextirnir voru aftur á móti hærri áður en covid byrjaði. Þannig að það var töluvert svigrúm til þess að lækka og síðan boðaði íslenski seðlabankinn að hann myndi fara út í skuldabréfakaup en gerði það aldrei, nema að mjög litlu leyti.“

Hún reiknar með að seðlabankarnir hækki vexti á næstunni. 

„Það eru flestir byrjaðir. Evrópski Seðlabankinn er ekki byrjaður en hann er búinn að gefa út að hann muni byrja í næsta mánuði. Bretland er búið að taka nokkur skref núna, Bandaríkin líka, Noregur og fleiri lönd. Þannig að þetta er það sem á fyrir okkur að liggja næstu mánuði.“