Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Sumir ósáttir við að ég sé að segja frá þessu“

Mynd: Alda Sigmundsdóttir / Aðsend

„Sumir ósáttir við að ég sé að segja frá þessu“

26.06.2022 - 11:00

Höfundar

„Fyrst og fremst er þetta mín saga,“ segir Alda Sigmundsdóttir sem gaf nýverið út endurminningarnar Daughter. Í bókinni segir hún frá narsissísku ofbeldi sem hún bjó við í uppvextinum. Hún segist ekki vilja særa neinn en hún eigi rétt á að segja sögu sína.

Alda Sigmundsdóttir skrifaði endurminningabókina Daughter sem fjallar um baráttu hennar við að losna úr viðjum narsissísks ofbeldis sem hún bjó við í æsku. Alda ræðir um sjálfsútgáfu, við Jórunni Sigurðardóttur í Orðum um bækur á Rás 1, hvernig hún byrjaði að skrifa og nýjustu bók sína. 

Hefur oft reynt að losna undan þessari þörf 

„Ég hef einhvern veginn innra með mér alltaf haft þörf fyrir að segja þessa sögu,“ segir Alda um nýjustu bók sína, Daughter. „Og ég get sagt í fullri hreinskilni að ég hef oft reynt að losna undan þessari þörf.“ Bókin fjallar um streituþrungið samband Öldu við móður sína þar sem hún reyndi en tókst ekki að fanga athygli og umhyggju móður sinnar.  

„Mér hefur alltaf þótt þessi saga eiga erindi vegna þess að þeir sem hafa orðið fyrir narsissísku ofbeldi hafa sogast inn í þessa orku með einhverjum sem er narsissisti. Þetta er rosalega eyðileggjandi afl,“ segir Alda. „Því miður hefur skort, að mér finnst, bara hreinlega vitneskju, umræðu og almenna sýn á þetta sem ég tel vera risastórt geðheilbrigðismál.“ 

Alda segir að umræðan um narsissisma hafi fram að þessu einkennst af því sem á ensku er kallað grandiose narsissismi. Þar er átt við fólk sem er ágengt, yfirþyrmandi og öfgakennt. „Það eru Donald Trump heimsins,“ segir hún. „Þetta fólk er stórt og einhvern veginn svona: Líttu á mig, ég er bestur og ég veit allt best og allir hinir eru hálfvitar.“ 

„En með frekari rannsóknum er að koma í ljós að það eru alls konar undirflokkar af narsissistum,“ segir Alda og bætir við að þetta fólk sé alls staðar í samfélaginu.  

Fá skammtinn frá öðru fólki 

Narsissismi er persónuleikaröskun og Alda segir að fólk með þá röskun skorti samkennd með öðrum. „Það er eins og það vanti þetta gen, þetta samkenndargen með öðru fólki og þar af leiðandi fara öll samskipti að snúast um valdabaráttu.“  

„Narsissistinn þarf svo mikið á öðru fólki að halda til þess að spegla sig, fá athygli og aðdáun,“ segir Alda og líkir við aðra fíkn þar sem viðkomandi þarf að fá sinn skammt. „Narsissistinn fær skammtinn frá öðru fólki og þess vegna þarf hann eða hún að ná öðru fólki á sitt vald, beinlínis, og það er gert með ýmsum aðferðum.“ 

Þarf að vera tilfinningalega satt  

Bókin átti alltaf að vera endurminningar, annars hefði hún ekki verið sönn. Það getur þó alltaf verið snúið að skrifa um raunverulega atburði og hafa eftir samtöl sem áttu sér stað. „Ég held að hin viðtekna venja sé að þetta þurfi að vera tilfinningalega satt,“ segir Alda. „Maður þarf að ná einhvers konar sannleika úr senunni.“ 

„Því auðvitað getur maður ekki munað orð fyrir orð samtöl sem áttu sér stað fyrir fjörutíu árum, það segir sig bara sjálft,“ segir Alda. „Hins vegar getur maður munað hvernig manni leið og hver sannleikurinn, kjarninn, í samtalinu var. Og auðvitað býr maður þá bara til samtal út frá því.“ 

„Að því sögðu þá er alveg sumt af þessu orð fyrir orð, ég man það,“ bætir hún við. 

Eins og að rista sig á hol og gera máltíð úr innyflunum 

Alda segir að það sé kúnst að matreiða sjálfsævisögu sem sé áhugaverð lesning. „Ég hef alveg heyrt þessu lýst sem svo að maður ristir sig á hol, tekur innyflin úr og býr svo til máltíð úr þeim,“ segir hún. „Þetta var pínulítið þannig.“ 

„Og auðvitað þarf maður að byggja þetta dálítið upp eins og skáldsögu, maður þarf að hafa vissa uppbyggingu til að halda athygli lesenda.“ Þegar endurminningar eru skrifaðar sé ekki bara hægt að rekja staðreyndir. 

„Kjarninn í memoir [endurminningum] er að það er annað hvort tímabil í lífinu, getur alveg verið bara fimm dagar úr lífinu, eða ákveðið þema,“ segir Alda sem ákvað að einblína á æskuárin fram að tvítugsaldri. „En það þarf auðvitað líka að vera þessi umbreyting persónunnar, sem er þá ég í þessu tilviki. Það þarf eitthvað að gerast, eitthvað að breytast í sögunni.“ 

Þurfti að takast á við sjálfa sig  

Alda segir að það sé einstakt ferli að skrifa slíka bók, sérstaklega þegar tekist er á við erfið mál og tímabil í lífinu. „Auðvitað þyrlast rosalega mikið upp við að skrifa um svona erfitt efni,“ segir hún. „Stundum þurfti ég hreinlega að setja þetta til hliðar og bara fara inn á við og takast á við sjálfa mig.“ 

„Þetta var alls ekki einfalt en að sama skapi mjög heilandi og hreinsandi,“ segir hún og bætir við að verkið hafi tekið heilmikið á. Bæði vegna tímans sem fór í að skrifa það og allrar þeirrar innri vinnu sem átti sér stað um leið. 

„Ég má eiga mína sögu, ég á rétt á henni“ 

Þegar skrifað er um raunverulega atburði þarf að hafa í huga að persónurnar eru líka alvöru fólk. Alda segir að þetta sé alltaf til umræðu meðal þeirra sem skrifa slíkar bækur. „En fyrst og fremst er þetta mín saga,“ segir hún. „Ég reyni að kalla hlutina réttum nöfnum án þess að vera að dæma þá endilega.“ 

„En ég meina, þessir hlutir gerðust. Og, jú, jú, það eru sumir sem eru ekkert allt of sáttir við að ég sé að segja frá þessu,“ segir Alda. „En að sama skapi má ég eiga mína sögu, ég á rétt á henni.“ 

„En þetta er alveg línudans og auðvitað gerir maður þetta ekki til að særa neinn,“ segir hún og bætir við að þetta sé ekki hefndarsaga, eða revenge memoir eins og það er kallað á ensku. „Ég er ekki að hefna mín á einum eða neinum. En hins vegar þurfti ég að fá að segja þessa sögu og ég þurfti að fá að geta opnað þessa sögu og sagt: Þetta er mín saga, ég á hana.“ 

„Það bara vill svo til að bækurnar mínar hafa orðið mjög vinsælar“ 

Alda er einna helst þekkt fyrir bókaflokkinn sinn Little books, þar sem hver bók fjallar um eitthvað sem tengist íslenskri menningu og sögu. Hún vill þó ekki kenna bækurnar við túrisma vegna þess að það eigi til að gjaldfella verkin.  

„Þetta eru ekki bækur sem eru bara skrifaðar fyrir ferðamenn heldur eru þetta bækur sem gefa kannski innsýn í okkar menningu, hugarheim, sögu og þjóðtrú. Og það sem ég leitast við er að setja þetta svolítið í samhengi.“  

Þetta geri hún að einhverju leyti vegna þess að hún ólst upp í Kanada og hafði því sinn fótinn í hvorum menningarheimi. Hún sé óbeint að reyna að rótfesta sig í íslenskri menningu og skilja hana betur. 

Hún segist hafa verið í þessari áhugaverðu stöðu vegna þess að hún er erlendis á mótunarárum sínum og kemur til Íslands sem útlendingur en þó íslensk, með íslenskt nafn og innsýn í íslenskan menningarheim sem aðrir útlendingar hafa ekki. „Og vissulega, og óbeint, og kannski bara á síðari árum sem ég hef gert mér grein fyrir því að það að skrifa um íslenskt samfélag er að sama leyti mín tilraun til að sameina þessa tvo þætti í mínu eigin sjálfi,“ segir hún. „Það bara vill svo til að bækurnar mínar hafa orðið mjög vinsælar.“ 

Bloggfærslur um hrunið leiddu til útgáfuferils 

Alda segist hafa farið út í bókaútgáfu á mjög náttúrulegan hátt. „Ég byrjaði að blogga, þegar allir voru að blogga hér á árum áður,“ segir hún sposk. Þetta var í kringum árið 2005 og hún var að skrifa um hvernig væri að búa á Íslandi. Á þessum tíma hafi fáir gert það þótt það sé vinsælt á samfélagsmiðlum í dag. Fólk erlendis hafði áhuga og fylgdi bloggsíðu hennar. „Svo kom hrunið.“ 

„Mín leið til að lifa af þegar ég var yngri var að skrifa,“ segir Alda. „Mín úrvinnsla, sálræna úrvinnsla, fer eiginlega fram þannig að ég skrifa um það.“ Þegar hrunið kom hafi allir fengið sjokk og reynt að átta sig á hvað hefði gerst.  

„Ég byrjaði að skrifa um það á bloggsíðunni minni, á ensku,“ segir hún. „Þá vantaði svo rosalega mikið erlendis af upplýsingum frá Íslandi, á tungumáli sem var ekki íslenska. Því við vorum náttúrulega bara hér í okkar umræðu.“ Erlendir miðlar og einstaklingar höfðu brennandi áhuga á að vita hvað væri að gerast á Íslandi vegna þess að við vorum fyrsta landið sem hrundi.  

„Þá fóru allir þessir aðilar að fylgja blogginu mínu og það fékk skyndilega mjög mikla athygli og það var verið að vitna í það í alls konar miðlum,“ segir Alda. „Og svo fóru þessir miðlar að koma hingað og vildu viðtal við mig og svo fór ég að skrifa fyrir þessa miðla.“ Alda starfaði til að mynda um hríð sem fréttaritari fyrir fréttaveituna AP. 

„Bækurnar mínar eiginlega bara uxu út úr þessari bloggsíðu,“ segir Alda. Fyrsta bók hennar fjallaði um hrunið. Hana gaf hún út í pdf-skjali sem fólk gat keypt í gegnum vefsíðuna hennar.  

„Svona vatt þetta upp á sig“ 

Næsta bók sem Alda gaf út bar titilinn The Little Book of Icelanders sem Forlagið gat út árið 2012. Alda ákvað eftir það að gefa út sjálf og segir að ýmsar ástæður séu fyrir því. Hún og maðurinn hennar, Erlingur Páll Ingvarsson, sjái um allt sjálf. Erlingur, sem er myndlistarmaður og grafískur hönnuður, hannar bækurnar fyrir Öldu.  

„Er reyndar núna með fólk í vinnu sem hjálpar mér því þetta er orðið svo umfangsmikið,“ segir Alda. „Svona vatt þetta upp á sig og þessi útgáfustarfsemi er orðin mjög öflug og gengur bara mjög vel.“  

Enginn ritstjóri, prentað eftir þörfum 

Alda nýtir sér að miklu leyti þjónustu bókarisans Amazon til að sjá um prentun og dreifingu bóka sinna erlendis. „Útgáfuheimurinn hefur breyst gífurlega á síðustu árum,“ segir hún. „Þetta byrjaði allt með því að Amazon fór að bjóða höfundum upp á að gefa út verkin sín beint.“  

„Það er enginn ritstjóri, og þeir eru ekki útgefandinn heldur ert þú útgefandinn. En þeir bjóða upp á platformið,“ segir Alda og á þá við að höfundar gátu gefið út verkin sín beint á Kindle, spjaldtölvu og forrit sem hægt er að lesa í rafbækur. Þetta hafi verið árið 2007 en síðan hafi mikið vatn runnið til sjávar. 

„Næst bauð Amazon upp á að gefa út prentaðar bækur og ég nýti mér það,“ segir Alda. „Fólk heldur einmitt að þetta sé þannig að ég sé með bækurnar hérna og sendi á Amazon og þeir dreifi fyrir mig, en það er ekki þannig.“  

Amazon notar svokallaða print on demand tækni, eða prentað eftir þörfum. Þá er sama skjali og útgefandi myndi senda á prentsmiðju hlaðið upp hjá Amazon og þeir prenta bækurnar eftir því sem þær eru pantaðar og dreifa þeim. Hér á Íslandi vinnur Alda líkt og hefðbundinn útgefandi fyrir sjálfa sig.  

Hún segir að Amazon sjái þó einungis um að prenta fyrir eigin verslanir en ýmsir aðilar annist slíka þjónustu út um allan heim. „Ég get til dæmis á minni eigin vefsíðu selt einhverjum sem býr í Ástralíu bókina mína. Hún fer sjálfkrafa í prentsmiðju í Ástralíu sem prentar hana og sendir viðkomandi.“ 

„Þannig að þetta er orðið gjörbreytt munstur.“ 

Gaf mörgum tækifæri til að lifa á bókaskrifum 

„Það er ekki lengur eins og var hérna áður fyrr þar sem útgefandinn stóð við hliðið og ákvað hverjum var hleypt í gegn og hverjum ekki,“ segir Alda. Hún telur að á árum áður hafi verið litið niður á sjálfsútgáfu, það þýddi að viðkomandi kæmist ekki að hjá útgefanda. Þetta sé algjörlega breytt landslag. 

Í dag sé mikil áhersla meðal smærri útgefenda og þeirra sem gefa út sjálfir að skila af sér góðu verki. „Stemningin í þessum indíheimi er alveg stórkostleg, ég verð bara að segja það,“ segir Alda. „Auðvitað er samkeppni en fólk er svo tilbúið að hjálpast að og deila upplýsingum.“ 

Hún segir að allar upplýsingar um þá þjónustu sem hefðbundinn útgefandi veiti sé aðgengileg öllum sem vilja sækja sér hana á netinu. „Þetta gaf höfundum í fyrsta sinn tækifæri, og mjög mörgum, til að lifa á því að skrifa bækur og gefa út bækur.“  

Hún segir að rödd útgefandans hafi verið orðin svo gildishlaðin, að hann legði ákveðna blessun yfir rithöfundinn og veitti honum leyfi til að gefa út. „En í grunninn er útgefandi náttúrulega bara þjónustuaðili,“ segir Alda.  

„Þetta er svolítið öðruvísi“ 

Sjálfsútgefendur reiði sig að miklu leyti á umsagnir lesenda sem birtast á miðlum á borð við Goodreads, þar tjái lesendur sig hreinskilnislega um bækurnar og ágæti þeirra. Mynstrið hjá Amazon og slíkri sölu sé dálítið ólíkt því sem gerist í hinum hefðbundna útgáfuheimi. 

„Þegar bók kemur út er mikið fjallað um hana og hún selst langmest fyrst. Svo kannski bara droppar það,“ segir hún. En bækur sem seldar eru helst á netinu geti verið í sölu endalaust.  

„Margar af mínum bókum hafa kannski byrjað hægt og farið svo að seljast meira eftir því sem umfjöllunin eykst, þetta er svolítið öðruvísi.“ Eftir því sem bækur seljast meira og fá fleiri umsagnir sýnir algrím notendum þær mun frekar. Þetta þurfa sjálfsútgefendur að hafa í huga. 

Vantar reynslusögur af narsissisma  

Bókin Daughter hefur spurst út og Alda vonast eftir að geta þýtt hana á íslensku. Hins vegar geti hún ekki sótt um þýðingarstyrk vegna þess að hún skrifaði verkið og gaf út sjálf. „Þá er þetta svolítið mikil fjárfesting og áhætta.“ 

Alda segir mikinn skort á upplýsingum og reynslusögum af narsissisma og því eigi bókin mikið erindi í umræðuna. Það þurfi að hafa í huga þegar endurminningar séu skrifaðar. „Hún þarf að eiga erindi, það hefur enginn áhuga á minni sögu, minni eigin naflaskoðun, nema þau geti tengt við eigið líf,“ segir Alda og vonast til að geta þýtt verkið. „Þetta er saga svo margra.“ 

Rætt var við Öldu Sigmundsdóttur í Orð um bækur á Rás 1. Viðtalið má hlusta á í heild sinni hér.