Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sjö ára og uppgötvaði óvænt merkilegan hæfileika

26.06.2022 - 19:15
Mynd: Sunna Karen / RÚV
Sjö ára stúlka í Norðlingaholti uppgötvaði nýverið merkilegan hæfileika, því hún getur bæði talað og sungið afturábak.

Hvað heitirðu fullu nafni? 

„Rittódsranra Kie.“ 

Og í hvaða skóla ertu?

„Alóksstlohagnilðron“

Sú stutta svarar öllum spurningum blaðamanns á augabragði og þarf ekki einu sinni að hugsa sig um áður en hún svarar - afturábak. Til þýðingar er um að ræða hina sjö ára Eik Arnarsdóttur sem komst að því fyrir um mánuði að hún gæti talað afturábak. 

Eva, systir Eikar, er tíu ára og reynir stundum að tala afturábak en finnst það svolítið snúið. 

„Stundum finnst mér mjög erfitt að skilja hvað hún er að segja, stundum segir hún það bara áður afturábak áður en hún segir það áfram og þá er ég ekki alveg viss um hvað hún er að segja. Það er svolítið erfitt stundum,“ segir Eva.

Systrunum var nokkuð tíðrætt um afa sinn í spjallinu, sögðu fréttamanni að hann væri frægur. Eik fór að sjálfsögðu létt með að segja nafnið hans afturábak.

„Iðnug“

Hvers son?

„Nosstsúgá“

Guðni Ágústsson var það - en þær taka fram að hann tali helst til of mikið. 

„Einu sinni var afi að sækja okkur hingað og hann var að tala svo mikið, var að segja eitthvað „vitiði hvað þetta fjall heitir, vitiði hvað þetta fjall heitir?“. Og ég var að reyna að telja því hann sagði að það væru 28 mínútur í að við myndum koma heim. Ég var að reyna að telja upp á það og ég sagði „afi nennirðu bara að hætta að tala,“ segir Eik og springur úr hlátri. 

Eik ætlar ekki að tala eins mikið og afi sinn þegar hún verður stór en vill verða leik- eða söngkona - og er strax orðin hæfileikarík á því sviði. 

 

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV