Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Sorgin er einhvern veginn yfirþyrmandi“ 

25.06.2022 - 12:27
epa10033131 Flowers and rainbow flags sit on the street after several shots were fired outside the London Pub in the center of Oslo, Norway, 25 June 2022. Two people were killed and at least 10 were injured after a gunman fired shots outside the London Pub, a gay bar and nightclub. The annual Pride Parade and related events in Oslo, scheduled for 25 June, was called off for security reasons.  EPA-EFE/Terje Pedersen  NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB
Formaður Samtakanna '78 segir síðasta sólarhring sorgardag í sögu og réttindabaráttu hinsegin fólks. Hann er sleginn yfir hryðjuverkunum í Ósló í gær og segir yfirþyrmandi að hugsa til þess að réttindi hinsegin fólks í Bandaríkjunum verði hugsanlega fótum troðin. 

„Við erum náttúrlega bara slegin og það er hræðilegt til þess að hugsa að einhver nýti sér gleðigönguna til þess að fremja svona ódæðisverk. Og hræðilegt að fyrir vikið að þá sé henni aflýst vegna þess að það hljómar eins og þetta sé nákvæmlega dagurinn sem þau hefðu þurft þessa göngu, að standa saman stolt og sýna samstöðu vegna þess að það er yfirleitt það sem við gerum best,” segir Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna ‘78. Hinsegin samfélagið allt sé í áfalli.

„Við tökum eftir ákveðnu mótlæti. Við tökum eftir því að við þurfum að hafa meira fyrir málunum  núna heldur en undanfarin ár,” segir hann en bætir við að bakslagið í réttindabaráttunni sé minna á Íslandi. „Og við berjumst fast gegn því að það verði.”

Ekki er vitað til þess að Íslendingar hafi særst í árásinni en utanríkisþjónustan hefur óskað eftir því að Íslendingar í Ósló láti aðstandendur vita ef það er í lagi með þá, en að þeir hafi samband við neyðarnúmer borgaraþjónustu ef aðstoðar sé þörf. Þá hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sent frá sér samúðarkveðjur og segir að um sé að ræða árás á frelsið til að elska - sem sé dýrmætur réttur sem unnið hafi verið að hörðum höndum. 

Álfur Birkir segir síðasta sólarhring hafa verið erfiðan og vísar til ákvörðunar Hæstaréttar Bandaríkjanna frá því í gær um að fella úr gildi rétt landsmanna til þungunarrofs. Samhliða því hafa hugmyndir verið uppi um að endurskoða samkynja hjónabönd, svo dæmi séu tekin. 

„Við sjáum það og höfum séð í gegnum tíðina þegar gengið er á réttindi eins hóps, þá eru réttindi næsta hóps og sérstaklega minnihlutahópa, skammt undan. Þarna var einn dómari sem lýsir því yfir að hann sé á leiðinni að sækja réttindi okkar og taka þau af okkur, eða okkar systkinum í Bandaríkjunum, og það er mjög alvarleg þróun. Við bara sendum samúðarkveðjur til okkar systursamfélaga í Bandaríkjunum um sem hljóta að spyrja sig um næstu skref,” segir hann.

Álfur Birkir segir að dagurinn í dag hafi átt að vera gleðidagur. Samtökin séu nú öll á leið í Skálholt vegna samvinnuverkefnis þeirra og Þjóðkirkjunnar: Ein saga - eitt skref.  Verkefnið var formlega kynnt af biskupi Íslands og formanni Samtakanna ‘78 á Hinsegin dögum þann 8. ágúst 2020. Tilgangur þess er að hefja uppgjör og læra af sögu misréttis gagnvart hinsegin fólki.

„Við opinberum hluta af sögum hinsegin fólks um sögu þeirra og kirkjunnar og þarna erum við að skrásetja hinsegin sögu á Íslandi, sem er mikilvægur hluti af baráttunni. Þetta er sorgardagur og gleðidagur á sama tíma en sorgin er einhvern veginn yfirþyrmandi.“ 

 

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV