Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjórða valdið sem fékk ekki að lifa

Mynd: EPA-EFE / EPA

Fjórða valdið sem fékk ekki að lifa

25.06.2022 - 11:30

Höfundar

Í þriðja pistli Victoriu Bakshinu í Víðsjá Rásar 1 um sögu Rússlands eftir fall Sovétríkjanna, er fjallað um blaðamennsku, eða fjórða valdið. Farið er gaumgæfilega yfir hvernig rússneskir fjölmiðlar blómstruðu á tíunda áratug síðustu aldar, samdráttarskeiðið í kjölfar þess og hvernig þeir eru nú, árið 2022, undir miklum þrýstingi.

Victoria Bakshina skrifar:

Með breytingum á 6. grein stjórnarskrár Sovétríkjanna árið 1990, sem staðfesti einokun Kommúnistaflokksins á forystu í öllu, var ritskoðun afnumin og réttur til útgáfu og dagskrárgerðar veittur ritstjórnum og ýmsum samtökum.

Í september 1991 tók gildi tilskipun forseta „Um ráðstafanir til að vernda fjölmiðlafrelsi“ og í lok desember voru lög „Um fjölmiðlun“ samþykkt. Stofnun nýrra stjórnmálaflokka vakti virka þróun flokkspressunnar af öllum gerðum og snemma á tíunda áratugnum voru um 1200 rit með skýra pólitíska stefnu skráð í Rússlandi.

Mikil uppbygging markaðstengsla í landinu varð hvati fyrir markaðsvæðingu blaðamennskunnar og þá sérstaklega útbreiðslu slúðurblaða. Lesendur orðnir þreyttir á stjórnmálum og efnahagsvanda og í þörf fyrir tilfinningalega útrás þannig að slúðurblöð nutu mikilla vinsælda.

Stöðugur samdráttur í útbreiðslu dagblaða og tímarita, sem voru gríðarlega vinsæl á Sovéttímanum, hélt áfram í nokkur ár. Um miðjan tíunda áratuginn varð ástandið nokkuð stöðugt en versnaði til muna aftur eftir efnahagskreppuna í ágúst 1998. Til að lifa af tóku margar stórborgarritstjórnir upp stefnu um svæðaskiptingu. Styrking á hlutverki og mikilvægi svæðisbundinna upplýsinga kom fram í breyttri forgangsröðun lesenda.

Snemma á tíunda áratugnum birtust erlend tímarit sem var dreift í Sovétríkjunum aðeins ólöglega. Nokkur stór erlend útgáfufyrirtæki komu inn á rússneska markaðinn, einkum Independent Media, Cosmopolitan, Playboy og Burda.

Um nokkurra ára skeið var svokallað styrkjakerfi virkt í landinu. Árið 1994 fengu útgáfur sem komið var á fót af rússneskum stjórnvöldum og stjórn forseta Rússlands styrki á alríkisfjárlögum upp á 39 milljarða rúbla. Þessi „endurhleðsla“ á fjárlögum leiddi þó ekki til þess að fjölmiðlar yrðu hlýðnir yfirvöldum. Óháð, og stundum andstæð afstaða þeirra kom skýrt fram, til dæmis í mati þeirra á fyrsta Téténíustríðinu, sem kom yfirvöldum óþægilega á óvart. Upplýsingamarkaðurinn vakti í auknum mæli athygli einkarekinna fjármálahópa.

Þingkosningar og forsetakosningar í kjölfarið staðfestu að fjárfesting í fjölmiðlum breyttist í áreiðanlegt pólitískt ferli. Það var á þessu tímabili sem stórir upplýsingahópar og fjölmiðlaveldi tóku á sig mynd. Á þessu stigi kom baráttan fyrir efnahagslegum og pólitískum áhrifum fram í samkeppni á milli rita. Henni fylgdu í auknum mæli „upplýsingastríð“, leit að ívilnandi ríkislánum og vestrænum fjárfestingum. Meginstefnan var miðstýring fjármagns á sviði fjöldasamskipta. Hins vegar hefur almennt versnandi efnahagsástand í landinu, stöðugar fjármálakreppur, sveiflur pappírsverðs, flutninga- og prentþjónustu sett meðalstóra og smáa fjölmiðla, sérstaklega á landsbyggðinni, í mikinn fjárhagsvanda. Því fylgdi að blaðamenn urðu í auknum mæli háðir útgefanda og eiganda fjölmiðla, og leiddi til þess að eigendur beittu blaðamenn efnahagslegum þrýstingi. Samkeppni milli fjölmiðla um hlutdeild á auglýsingamarkaði varð sífellt harðari og ósveigjanlegri. Einn öflugasti þátturinn sem hafði áhrif á innlenda blaðamennsku og breytti eðli hennar var þróun nýjustu upplýsingatækni svo sem kapal- og gervihnattasjónvarps,

tölvugagnagrunna, margmiðlunar, og netmiðla. Rússnesk blaðamennska tók virkan þátt í hinu ört vaxandi alþjóðlega upplýsingarými.

Þegar Pútín komst til valda , styrkti hann spillinguna fljótt og skapaði einstrengingslega fjölmiðla. Andstæðingum, gagnrýnendum og andófsmönnum var ýtt inn í uppreisnargjörn rit eins og Novaya Gazeta. Eða myrtir, ef þeir komust of nálægt sannleikanum um Pútín og fylgismenn hans. Blaðamenn fengu ekki laun, starf þeirra var mjög áhættusamt og setti fjölskyldur þeirra í hættu. Þeir sem skrifuðu á tímabilinu þegar Pútín kom til valda voru algjörar hetjur. Þann 7. október 2005, tveimur dögum eftir að Anna Politkovskaya tilkynnti um rannsókn sína á Ramzan Kadyrov, Téténíuforseta, var hún skotin til bana í lyftu heima hjá sér. Fyrir einhverja ólýsanlega tilviljun lenti dánardagur hennar á afmæli Pútíns. Morðið á Politkovskayu var gríðarlegt áfall fyrir rannsóknarblaðamennsku. Aðeins mánuði eftir dauða hennar veiktist fyrrverandi rússneskur öryggisfulltrúi, Alexander Litvinenko, skyndilega. Hann lést, eins og síðar kom í ljós, af völdum geislavirks pólons. Það verður að koma fram að Litvinenko skrifaði nokkrar bækur um valdatöku Pútíns. Morðið á Paul Klebnikov, bandaríska ritstjóra rússnesku útgáfunnar af tímaritinu Forbes, er enn óleyst. Hann var myrtur nokkrum dögum eftir birtingu lista yfir 100 ríkustu menn Rússlands, sem margir voru nátengdir Pútín. Klebnikov var skotinn 9. júlí 2004 þegar hann var að yfirgefa skrifstofu Forbes. Hann var fluttur á sjúkrahús í sjúkrabíl sem var ekki með súrefniskút og lést í lyftu sem festist á leiðinni í skurðaðgerð.

Eftir að hafa komist í yfirburðastöðu í fjölmiðlum setti ríkið fram nýjar kröfur um blaðamennsku: Fjölmiðlum sem fá peninga frá ríkinu - á fjárlögum eða í formi auglýsingasamninga ríkisfyrirtækja - er skylt að verja hagsmuni ríkisins. Eftir Krím og Donbas var þessu bætt við: Þótt fjölmiðill fái ekki peninga frá ríkinu, er hann ekki laus undan þeirri skyldu að taka tillit til hagsmuna þess. Sá sem er ósammála þessu er frjálslyndur andstæðingur þjóðernissinna og umboðsaðili óvinarins. Þannig hefur áróður komið í stað sannleikans.

Til að skoða ástand blaðamennskunnar á þessu tímaskeiði hef ég fengið til liðs við mig Andrei Menshenin, blaðamann frá Rússlandi, sem hefur búið á Íslandi síðan 2016. Hann er nemi í alþjóðasamskiptum í Háskóla Íslands . Nú stefnir í að honum verði vísað úr landi og þá gæti hann endað í fangelsi. Vegabréfið hans er að renna út og rússneska ræðisskrifstofan á Íslandi hefur meinað honum að fá nýtt vegna þess að hann skipulagði fjölmörg mótmæli gegn stríðinu í Úkraínu við rússneska sendiráðið.

Ég spurði Andrei meðal annars hvernig hann myndi lýsa blaðamennsku árið 2009 þegar hann hóf störf. Hann segir að á þeim tíma hafi blaðamennska enn verið víðsýn þrátt fyrir augljósan áhuga ríkisins á yfirtöku einkarekinna fjölmiðla. Þá var nóg pláss fyrir blaðamenn til að ræða ýmis efni. Leiðtogum stjórnarandstöðunnar var boðið í útvarp og sjónvarp, fréttir bárust af götumótmælum og mannréttindabrotum ríkisins. Jafnvel þó að fjölmiðlum hafi þá þegar verið stjórnað af samstarfsmönnum Pútíns eins og Gazprom Media, sem er partur af Gazprom sem flytur út gas til Evrópu, var auðvelt að fjalla um mismunandi mmálefni. Fyrsti vinnuveitandi Andreis, fréttastofan BaltInfo, var í eigu náins vinar Pútíns, Olegs Rudnov, sem gaf blaðamönnum engar skipanir um að forðast tiltekið umfjöllunarefni. Andrei vissi að hann átti ekki að skrifa um fjölskyldu Vladimirs Putins, annað var frjálst að ræða.

Með innrás Rússa í Úkraínu hurfu óháðir fjölmiðlar því sem næst. Ríkið lokaði þeim og lýsti því yfir að þeir störfuðu í umboði útlendinga. Þeir fá hvorki fjármuni né útsendingartíma. Blaðamönnum er hótað, þeim er ráðist á göturnar ef þeir segja þá skoðun sem er ólík ríkisfjölmiðlum. Svo auðvitað spurði ég Andrei hvort það væri einhver von fyrir rússneska fjölmiðla í framtíðinni.

Andrei segir að það sé einhver von en miðað við núverandi stöðu rússneskra fjölmiðla sé ekki hægt að tala um blaðamennsku. Flestir fjölmiðlar séu lokaðir eða fylgi leiðbeiningum frá varnarmálaráðuneytinu í

umfjöllun um ástandið í Úkraínu eða leiðbeiningum frá Kreml um stjórnmálaástandið í Rússlandi. Öll brot á þessum leiðbeiningum leiða til alvarlegra refsinga, jafnvel lokunar fjölmiðlanna. Hann ítrekar að mörgum óháðum fjölmiðlum hafi verið lokað undanfarna þrjá mánuði, þar á meðal útvarpsstöðinni Echo Moskvy (Bergmál Moskvu), sem var stofnað 1990 og var í eigu Gazprom Media. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að framtíð blaðamennsku í Rússlandi sé háð aðstæðum í landinu í heild: pólitískum, efnahagslegum og félagslegum. Þegar herlög um ritskoðun verða afnumin verður fyrst einhver framtíð fyrir blaðamennskuna. Við vonum bæði af heilum hug að rússneskir fjölmiðlar syngi ekki svanasönginn.