Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Átján fórust er þúsundir stormuðu spænska hólmlendu

25.06.2022 - 04:35
epa10031489 Migrants on their way to a Centre for Temporary Residence of Immigrants (CETI) in Melilla, Spanish enclave in northern Africa, 24 June 2022. Dozens of migrants bursted in Melilla after breaking a border crossing access.  EPA-EFE/PAQUI SANCHEZ
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Minnst átján manns úr hópi afrísks flótta- og förufólks lét lífið og á þriðja hundrað manns slasaðist þegar fjöldi fólks freistaði þess að komast inn í spænsku hólmlenduna Melilla á norðurströnd Marokkó í gær. AFP-fréttastofan hefur þetta eftir spænskum og marokkóskum yfirvöldum.

Í yfirlýsingu spænskra yfirvalda í Melilla segir að um 2.000 manns hafi komið gangandi til Melilla í dögun á föstudag og að um 500 þeirra hafi tekist að komast inn á biðsvæði landamæraeftirlitsins -- og þar með spænska grund -- eftir að einhver úr hópnum klippti gat á vírgirðinguna sem umlykur það.

Haft er eftir ónefndum fulltrúa marokkóskra yfirvalda að þrettán úr þessum stóra hópi hafi dáið af sárum sínum síðdegis í gær og fimm hafi látist þegar um morguninn. Hann sagði að sum þeirra hafi látist vegna meiðsla sem þau hlutu þegar þau duttu niður af girðingunni sem skilur sðænsku hólmlenduna frá Marokkó.

Sami heimildarmaður greindi frá því að 140 lögreglumenn og landamæraverðir hefðu meiðst í troðningnum og minnst 76 úr hópi förufólksins.

Sanchez fordæmir atburðinn og kennir mafíu um

Spænska herlögreglan, sem sér um lög- og öryggisgæslu í Melilla, neitaði að tjá sig um atvikið og vísaði á marokkósk yfirvöld, segir í frétt AFP. Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, fordæmdi það sem hann kallaði „ofsafengna árás“ manngrúans á landamærin. Hann fordæmdi þó ekki förufólkið, heldur sagði „mafíur, sem stunda ólöglega verslun með manneskjur“ ábyrgt fyrir þessum hörmulega atburði.