
Árásin rannsökuð sem hryðjuverk og Oslo Pride aflýst
Byssumaður réðst til atlögu í fjölfarinni götu í miðborg Oslóar í nótt, drap tvær manneskjur og særði hátt í tuttugu manns, þar af tíu alvarlega. Næturklúbburinn London Pub, vinsæll samkomustaður hinsegin fólks, var miðdepill árásarinnar.
Rannsakað sem hryðjuverk og hatursglæpur
Flest bendir til þess að árásarmaðurinn hafi vísvitandi ráðist að fólki sem þar var að skemmta sér í aðdraganda gleðigöngunnar Oslo Pride sem fara átti fram dag.
Sjá einnig: Mannskæð skotárás í miðborg Oslóar í nótt
Á fréttafundi lögreglu í morgun greindi Christian Hatlo, sem stýrir rannsókn málsins, frá því að einn maður hafi verið handtekinn í tengslum við það. Hann er norskur ríkisborgari af írönsku bergi brotinn, sagði Hatlo, og er grunaður um morð, morðtilraunir og hryðjuverk.
„Það er ástæða til að ætla að þetta hafi verið hatursglæpur. Það er ein tilgáta,“ sagði Hatlo. Talið er að hinn grunaði hafi verið einn að verki, þótt ekkert hafi verið útilokað í þeim efnum.
Oslo Pride aflýst
Skipuleggjendur gleðigöngunnar Oslo Pride sendu líka frá sér tilkynningu í morgunsárið. Þar segir að göngunni og öðrum hátíðarhöldum dagsins hafi verið aflýst „samkvæmt skýrum ráðum og tilmælum lögreglu.“
Öll þau sem ætluðu að fjölmenna í gleðigönguna og á aðra viðburði Oslo Pride eru því beðin að halda sig heima, fara vel með sig og sína og vera góð hvert við annað.
„Við verðum bráðum stolt og sýnileg á ný, en akkúrat í dag skulum við halda málstað okkar og gildum á lofti heima hjá okkur og deila þeim þaðan með umheiminum,“ skrifa þau Kristin Haugsevje og Inge Alexander Gjestvang, sem stóðu í fylkingarbrjósti skipuleggjenda Oslo Pride að þessu sinni.