Rússnesk herflutningavél hrapaði skammt frá Moskvu

24.06.2022 - 07:04
Mynd með færslu
Ilyushin Il-76 eins og sú sem hrapaði í nótt Mynd: Vitaly V. Kuzmin - Wikipedia/Wikimedia
Fjórir fórust og fimm slösuðust þegar rússnesk herflutningavél hrapaði í borginni Ryasan, suðaustur af Moskvu, í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu héraðsyfirvalda. TASS-fréttastofan greinir frá.

Varnarmálaráðuneytið sendi frá sér tilkynningu skömmu síðar þar sem greint er frá því að vélin hafi verið í æfingarflugi, ólestuð, þegar flugstjórinn ákvað að freista þess að lenda henni í skyndingu vegna vélarbilunar.

Vélin, sem var af gerðinni Ilyushin Il-76, skemmdist mikið í lendingunni, segir í tilkynningu ráðuneytisins. Hún brotlenti á akri nærri íbúðabyggð í útjaðri borgarinnar. Þeir sem lifðu lendinguna af voru fluttir á sjúkrahús. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV