
Ríkið viðurkennir brot í 14 málum tengdum Landsrétti
Fréttablaðið greinir frá. Með þessu lýsir ríkið því yfir að kærendur í hverju máli eigi þann kost að krefjast endurupptöku máls síns fyrir íslenskum dómstólum.
Samkvæmt frétt blaðsins eru þarna á meðal nauðgunarmál, fíkniefnamál og dómur fyrir spillingu og brot í starfi.
Landsréttarmálið má rekja til þess að Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað að skipta út fjórum umsækjendum sem dómnefnd um hæfni umsækjanda hafði metið meðal 15 hæfustu. Málið fór fyrir yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu sem staðfesti árið 2020 að Sigríður hefði brotið lög með skipun dómara við Landsrétt. Hún sagði af sér embætti vegna þessa.
Í kjölfarið var fjölda dóma vísað til Mannréttindadómstólsins sem áttu það sameiginlegt að hafa verið kveðnir upp af dómurum sem voru ólöglega skipaðir.