Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Niðurstaða Roe gegn Wade afleiðing valdatíðar Trumps

24.06.2022 - 15:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segir að úrskurður Hæstaréttar Bandaríkjanna í máli Roe gegn Wade hafi strax áhrif. Með úrskurðinum verður þungunarrof þegar ólöglegt víða um landið.

Ný lög sem banna þungunarrof tóku samstundis gildi í þrettán ríkjum Bandaríkjanna þegar úrskurður Hæstaréttar féll í máli Roe gegn Walde. Búist er við að slíkt hið sama gerist í enn fleiri ríkjum landsins á næstunni.

Dómur í máli Roe gegn Wade féll upphaflega árið 1973, þar sem staðfest var að þungunarrof væri stjórnarskrárvarinn réttur í Bandaríkjunum. Nú hefur Hæstiréttur snúið dómnum og komist að þeirri niðurstöðu að stjórnarskráin tryggi konum ekki rétt til þungunarrofs, heldur sé það sé löggjafarvaldsins í hverju ríki fyrir sig að ákveða hvort konur fái að gangast undir þungunarrof.

„Þetta þýðir að í um það bil helmingi ríkja Bandaríkjanna er rétturinn til aðgangs að þungunarrofi í raun og veru fallinn úr gildi. Þetta kallar á það að fólk sem vill nýta sér þessa heilbrigðisþjónustu þarf að bera af því mikinn kostnað, bæði pening og tíma, til þess að tryggja sér aðgang að því sem við teljum grundvallar heilbrigðisþjónustu í flestum vestrænum löndum,“ segir Silja Bára.

Trump skipaði íhaldssama dómara

Íhaldsfólk í Bandaríkjunum hefur í áratugi barist fyrir því að fá „Roe gegn Wade“ hnekkt og ná þessum breytingum fram. Silja Bára segir breytinguna í Hæstarétti vera afleiðingu valdatíðar Donalds Trump, sem skipaði íhaldssama dómara við réttinn. Margir óttist bakslag í fleiri málaflokkum í framhaldinu, svo sem í réttindum hinsegin fólks.

„Þrír af níu dómurum eru skipaðir af Trump. Eitt af loforðum hans í sínu framboði var að hann myndi endurstilla Hæstarétt og Trump skipaði mjög ungt fólk. Þannig að þessir dómarar munu sitja langt umfram það sem hið pólitíska umboð, sem þeir sitja í, varir. Þannig að til lengri tíma hafa þeir alveg gríðarleg áhrif á þróun bandarísks samfélags.“

Clarence Thomas er einn dómaranna sem greiddi atkvæði með því að fella úrskurðinn úr gildi. Hann skilaði séráliti þar sem hann segir beinlínis að tilefni sé til þess að endurskoða úrskurði sem tryggi meðal annars réttinn til samkynja hjónabanda og aðgang að getnaðarvörnum.

Silja Bára segir þessa yfirhönd íhaldssamra dómara í Hæstarétti Bandaríkjanna eftir valdatíð Trumps sýna eina af skekkjunum í bandarísku stjórnkerfi. Hún segir meirihluta bandarísks almennings vera fylgjandi réttinum til þungunarrofs en að það endurspeglist ekki í hæstarétti. 

Gagnrýna niðurstöðuna

Fjölmargir hafa orðið til að tjá sig um dómsniðurstöðuna. Ein þeirra er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem lýsir yfir vonbrigðum á Twitter. Hún segir sárt að sjá að Hæstiréttur hafi hnekkt „Roe gegn Wade“. Þá segir hún að auka þurfi réttindi kvenna, ekki takmarka.  

Planned Parenthood, frjáls félagasamtök sem sjá fólki fyrir heilbrigðisþjónustu á borð við getnaðarvarnir og fóstureyðingar í Bandaríkjunum, hétu því eftir ákvörðun Hæstaréttar að halda áfram að vera til staðar fyrir þau sem þurfi á þjónustu þeirra að halda. 

Þá hefur Barack Obama fyrrverandi forseti Bandaríkjanna gagnrýnt dóminn harðlega og sagt hann árás á grundvallar réttindi.