Fóru í helgarferð en komu ekki til baka

Mynd: RÚV / RÚV

Fóru í helgarferð en komu ekki til baka

24.06.2022 - 16:06

Höfundar

Í mars 2020 fóru hjónin Guðný Gígja og Einar Óskar í helgarferð til Patreksfjarðar, þegar allt skall svo í lás. Í stað þess að fara heim urðu hjónin eftir og opnuðu síðar menningarmiðstöðina FLAK. Spennandi sköpun fer nú vaxandi á landsbyggðinni, eftir því sem yngra fólkinu fjölgar.

Hjónin Guðný Gígja Skjaldardóttir og Einar Óskar Sigurðsson fluttu frá Reykjavík vestur á firði í miðjum heimsfaraldi þar sem þau hafa komið sér vel fyrir og reka menningarmiðstöðina FLAK. Guðrún Sóley Gestsdóttir ræddi við þau um þetta ævintýri í Kastljósi á RÚV. 

Komu ekki heim úr helgarferð 

„Ég er fædd og uppalin hér á Patró,“ segir Gígja en hún fluttist til Reykjavíkur þegar hún hóf nám við Flensborg. „Þar fór ég fljótt í kór, sem var mikið ævintýri fyrir unga sveitastelpu.“ Gígja hefur birst landsmönnum sem hluti af hljómsveitinni Ylju sem hún skipar ásamt Bjarteyju Sveinsdóttur.  

Einar er aftur á móti Vesturbæingur en þau Gígja kynntust í Reykjavík þar sem þau lærðu saman ljósmyndun. „Í mars 2020 skellum við okkur bara í helgarferð hingað með krakkana,“ segir hann. „Og á sunnudeginum þá er bara öllu lokað. Það er kominn heimsfaraldur.“  

„Þannig að við fórum bara ekkert til baka,“ segir Einar. Þau hafi sótt búslóðina tveimur mánuðum síðar og opnað bar. „Við tökum við húsinu og förum strax í heilmiklar framkvæmdir að gera það upp“. 

Vill vera í samstarfi við listamenn og háskóla 

FLAK er allt í senn veitingastaður, samkomu- og tónleikahús og gallerý. „Við höfum svolítið verið að leggja áherslu á tónleikahald,“ segir Gígja en síðustu tvö sumur sem staðurinn hefur verið opinn hafa hinir ýmsu tónlistarmenn komið fram. „Og það er mikið fjör.“ 

Meðal þeirra viðburða sem haldnir hafa verið í FLAK eru ljósmyndasýningar, tónleikar, prjóna- og ukulele-námskeið. „Við erum að færa okkur kannski aðeins meira yfir í myndlist og ljósmyndun,“ segir Eina, sem vill eiga í meira samstarfi við listamenn og háskólana. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
FLAK er allt í senn veitingastaður, samkomu- og tónleikahús og gallerý.

„Það er búið að taka daglega amstrið burt“ 

Margt hefur breyst við flutningana úr borg í sveit og segja þau hjúin að ansi mikið hafi hægst á deginum. „Við þurfum ekki lengur að vakna alveg snemma og þurfum ekki að leggja eins fljótt af stað úr vinnu eða skóla, eins og við þurftum áður,“ segir Gígja og bætir við að það sé mikill kostur fólginn í því að vera kominn heim klukkan fjögur og vera búinn að sækja börnin á leikskólann. 

„Það er búið að taka daglega amstrið burt,“ segir Einar og Gígja bætir við að skutl heyri nú sögunni til. „Það er ákveðið stress-level sem fylgir því að vera í borginni, sem við elskum samt, sem er bara tekið. Og í skiptum fáum við tíma með börnunum okkar, fjölskyldu og okkur sjálfum,“ segir Einar. 

„Við erum ekkert föst hér“ 

Þau hafi þó ekki þurft að gefa upp áhugamálin við flutningana. „Fyrir okkur sem erum svona menningarsækin og finnst gaman að fara á viðburði,“ segir Gígja. „Þá erum við ekki einungis að fá þá hingað heldur sjáum við þetta alltaf þannig að við erum ekkert föst hér. En við nýtum þær ferðir sem við förum í bæinn til að sækja sýningar og viðburði.“ Það sé því ekkert sem þau séu hætt að gera þó svo þau séu nú staðsett á Patreksfirði. „Ef maður hefur á annað borð áhuga á því þá einhvern veginn gerir maður það,“ segir hún. 

„Ef maður safnar saman meðal Vesturbæingum með nokkur börn, og telur hvað maður eyðir miklum tíma í umferðinni, þetta er ótrúlega mikill tími,“ segir Einar. „Og eitt skutl fyrir okkur tvö í einhverja menningarferð í mánuði, það á ekkert við alla tímana sem maður eyðir í þetta daglega amstur í bænum.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gígja og Einar gerðu fóru strax í heilmiklar framkvæmdir.

Alls konar sprotar að myndast á landsbyggðinni 

Einar segir að yngra fólk sækist einna helst í það að flytja vestur. „Sem glímir kannski við að kaupa íbúð eða stækka við sig, það er að flytja út á land,“ segir hann. „Það er enn þá miklu ódýrara, þannig að fólk er bæði að flytja í sparnaðarskyni og í þeim tilgangi sem við erum að flytja hingað. Sem er að spara tíma og eyða meiri tíma með okkur sjálfum og börnunum.“ 

„Það sem mér finnst svo gaman að sjá er hvernig það er að fyllast hér inn í,“ segir Einar. Vegna þess að mikið af fólki sem er að flytjast til landsbyggðarinnar fellur ekki beint inn í hinn hefðbundna atvinnuveg og á Einar þá við um fiskvinnslu, skóla- og heilbrigðisþjónustu og aðra almenna grunnþjónustu. „Þar er að verða einhvers konar sköpun. Fólk er að búa sér eitthvað til, af því að það hefur rými og fjármuni til þess,“ segir Einar. „Þá eru að verða til eins konar sprotar af hinu og þessu á svona stöðum eins og á Patreksfirði.“  

Rætt var við Guðný Gígju Skjaldardóttur og Einar Óskar Sigurðsson í Kastljósi á RÚV.  Viðtalið má horfa á í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Dýpka eigin skilning og annarra á þjóðlögunum