Hjónin Guðný Gígja Skjaldardóttir og Einar Óskar Sigurðsson fluttu frá Reykjavík vestur á firði í miðjum heimsfaraldi þar sem þau hafa komið sér vel fyrir og reka menningarmiðstöðina FLAK. Guðrún Sóley Gestsdóttir ræddi við þau um þetta ævintýri í Kastljósi á RÚV.
Komu ekki heim úr helgarferð
„Ég er fædd og uppalin hér á Patró,“ segir Gígja en hún fluttist til Reykjavíkur þegar hún hóf nám við Flensborg. „Þar fór ég fljótt í kór, sem var mikið ævintýri fyrir unga sveitastelpu.“ Gígja hefur birst landsmönnum sem hluti af hljómsveitinni Ylju sem hún skipar ásamt Bjarteyju Sveinsdóttur.
Einar er aftur á móti Vesturbæingur en þau Gígja kynntust í Reykjavík þar sem þau lærðu saman ljósmyndun. „Í mars 2020 skellum við okkur bara í helgarferð hingað með krakkana,“ segir hann. „Og á sunnudeginum þá er bara öllu lokað. Það er kominn heimsfaraldur.“
„Þannig að við fórum bara ekkert til baka,“ segir Einar. Þau hafi sótt búslóðina tveimur mánuðum síðar og opnað bar. „Við tökum við húsinu og förum strax í heilmiklar framkvæmdir að gera það upp“.
Vill vera í samstarfi við listamenn og háskóla
FLAK er allt í senn veitingastaður, samkomu- og tónleikahús og gallerý. „Við höfum svolítið verið að leggja áherslu á tónleikahald,“ segir Gígja en síðustu tvö sumur sem staðurinn hefur verið opinn hafa hinir ýmsu tónlistarmenn komið fram. „Og það er mikið fjör.“
Meðal þeirra viðburða sem haldnir hafa verið í FLAK eru ljósmyndasýningar, tónleikar, prjóna- og ukulele-námskeið. „Við erum að færa okkur kannski aðeins meira yfir í myndlist og ljósmyndun,“ segir Eina, sem vill eiga í meira samstarfi við listamenn og háskólana.