Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Einn dómara vill líka endurskoða samkynja hjónabönd

epa09155623 Associate Justice Clarence Thomas sits during a group photo of the Justices at the Supreme Court in Washington, DC, USA, 23 April 2021.  EPA-EFE/Erin Schaff / POOL
 Mynd: EPA
Fleiri réttindi en rétturinn til þungunarrofs gætu verið í hættu eftir að meirihluti hæstaréttar Bandaríkjanna birti úrskurð sinn í máli þar sem kveðið er á um að fordæmisgefandi niðurstaða í máli Roe gegn Wade frá því fyrir hálfri öld skyldi felld úr gildi.

Sú niðurstaða tryggði réttinn til þungunarrofs en eftir úrskurð hæstaréttar í dag öðlaðist samstundis gildi löggjöf í þrettán ríkjum sem ýmist banna þungunarrof eða takmarka það veruleika. Búist er við að álíka mörg ríki til viðbótar innleiði sams konar löggjöf á næstunni.

Endurskoða aðra úrskurði

Clarence Thomas er einn dómaranna sem greiddi atkvæði með því að fella úrskurðinn úr gildi. Hann skilaði sömuleiðis séráliti þar sem hann sagði tilefni til þess að endurskoða úrskurði sem tryggðu meðal annars réttinn til samkynja hjónabanda sem og  aðgengis að getnaðarvörnum.

Í áliti sínu sagði Thomas fullt tilefni til þess að endurskoða sambærilega fordæmisgefandi dóma og í máli Roe gegn Wade. Nefndi hann sérstaklega mál Griswolds, Lawrence og Obergefell.

Samkynja kynlíf, hjónabönd og getnaðarvarnir

Í máli Griswold gegn Connecticut árið 1965 var niðurstaða hæstaréttar að hjón eigi rétt á aðgengi að getnaðarvörnum. Í máli Lawrence gegn Texas árið 2003 var niðurstaðan sú að ríki megi ekki banna samkynja kynlíf og í máli Obergefell gegn Hodges frá 2015 tryggði hæstiréttur réttinn til samkynja hjónabanda.

Ólíkt meirihlutaálitinu er sérálit Thomas ekki bindandi. Í meirihlutaálitinu sjálfu, sem Samuel Alito dómari ritar, segir að þau mál séu ekki sama eðlis og Roe gegn Wade. Þar segir að málin séu ólík þar sem þau snúast ekki um „mögulegt líf“

Þeir þrír dómarar sem skiluðu minnihlutaáliti vöruðu við framhaldinu og sögðu að viðhorf meirihlutans sýni að hætta er á að rétturinn til samkynja samböndum og hjónaböndum og aðgengis að getnaðarvörnum verði felldur úr gildi.