Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Dauðsföllin í Reynisfjöru

24.06.2022 - 15:18
Mynd með færslu
 Mynd: Roar Aagestad
Tugir ferðamanna hafa lent í bráðri lífshættu við Reynisfjöru undanfarin ár. Gráðugt Atlantshafsbrimið hefur tekið þar fimm líf síðan 2013, síðast núna fyrr í þessum mánuði. „Snúðu aldrei baki í öldurnar,“ segja heimamenn. Í Þetta helst skoðum við sögu og stöðu þessa rómaða og banvæna ferðamannastaðar sem hefur aftur og aftur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir náttúrufegurð án hliðstæðu.

„Hætta! Lífshættulegar öldur!“ stendur á stórum skiltum sem taka á móti fólki áður en það röltir af stað í átt að dáleiðandi og óútreiknanlegu brimrótinu. 
Leiðsögumenn og fjöldinn allur af vefsíðum vara við þessum stað, sem heldur samt sem áður áfram að taka líf forvitinna ferðamanna. Umræður um öryggismál í fjörunni dúkka upp reglulega, starfshópar eru stofnaðir og málin rædd. Landeigendur benda á ríkið sem bendir til baka, eins og svo oft áður þegar um er að ræða vinsæla ferðamannastaði þessa lands sem eru í eigu fólks á svæðinu. En hvað er hægt að gera og verður eitthvað gert?