Vopnatilkynningum hefur fjölgað mikið síðustu ár

Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚv
Lögregla fær mun oftar en áður tilkynningar um notkun vopn. Flestar snúa þær að hnífamálum en tilkynningum um skotvopn í umferð hefur einnig fjölgað mikið.

Í gær var umfangsmikið útkall hjá lögreglu þegar skotið var á bíla í Hafnarfirði.  Það endaði með því að byssumaðurinn var handtekin eftir langt umsátur. 

„Tölurnar sýna okkur svart á hvítu að vopnatilkynningum svokölluðum hefur fjölgað á undanförnum árum“, sagði Runólfur Þórhallsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í greiningardeild ríkislögreglustjóra í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Runólfur segir að vopnatilkynningum hafi fjölgað verulega, allt frá frá 2016, og lögreglan fylgist náið með þessari þróun. Bróðurpartinn megi rekja til hnífamála en tilkynningum um skotvopn hafi líka fjölgað verulega. Þá sé styttra á milli skotvopnamálanna en áður. 

Lögregla hefur undanfarin ár haft á að skipa lögreglumönnum sem hafa fengið sérstaka þjálfun í samningatækni. í aðgerðinni í gær voru samningamenn í stóru hlutverki í samskiptum við byssumanninn. „Þau æfa reglulega og fara núna með í öll útköll hjá sérsveitinni“, sagði Runólfur.

Rætt var við Runólf Þórhallsson í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.