Vissara að klæða sig vel í útilegunni fyrir norðan

23.06.2022 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Það gránaði í fjöll á norðanverðu landinu í nótt og vissara fyrir þá sem ætla í útilegu um helgina að klæða sig vel. Það spáir köldu veðri fyrir norðan næstu daga og þriggja til fimm stiga hita yfir nóttina.

Það var víða kuldalegt að líta til fjalla á Norðurlandi í morgun og þó að oft hafi gránað í fjöll í júní þá stingur það alltaf í stúf við útsprunginn gróðurinn og fagurgræn tún.

„Varla nema þrjár til fimm gráður að næturlagi“

Veðurhorfurnar næstu daga á norðanverðu landinu eru ekki upp á það besta. „Það verður nú frekar svalt og sérstaklega að næturlagi. Það eru varla nema kannski þrjár til fimm gráður að næturlagi og getur farið um og kannski skriðið yfir tíu gráður þar sem best lætur yfir daginn,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofunni. Það á að rigna fyrripartinn á morgun og síðdegis á sunnudag og þá segir hann útlit fyrir að heldur mildara loft komi að landinu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Húsbílar og tjöld á Hömrum við Akureyri

Væntanlega kalt að liggja í tjaldi

Það verður því væntanlega kalt að liggja í tjaldi um helgina, en fyrir norðan eru til dæmis stór fótboltamót yngri flokka og mörg tjaldstæði þéttsetin ferðamönnum. En þá er bara að klæða sig vel. „Já, það er kannski ágætt að velja sér örlítið hlýrri föt heldur en almennt þarf að nota í lok júní,“ segir Óli Þór.“
„Sérðu lengra fram í tímann?“
„Eftir helgi er nú útlit fyrir að hlýni ofurlítið. En norðlægar áttir ætla að verða og vilja oft verða frekar þaulsætnar þegar þær ná sér á strik. En þær verða mildari í næstu viku.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV