Vara við skaðlegu efni í útivistarvörum

23.06.2022 - 14:03
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Margir landsmenn eru á leið í sumarfrí og íhuga ef til vill í kaup á nýjum útivistarfatnaði eða útivistarvörum. Umhverfisstofnun hefur hins vegar varað við efni sem leynist í mörgum þessum vörum og getur reynst skaðlegt heilsu fólks.

Efnið sem stofnunin varar við er flúorefni sem hrindir frá sér bæði vatni og fitu og hefur því hentað afar vel í útivistarvörur. Efnið, svokallað PFAS, leynist þó ekki einungis í útivistarvörum heldur getur leynst í öllum textíl- og leðurefnum sem eru vatns- og fitufráhrindandi, viðloðunarfríum pönnum, pottum og snyrtivörum, svo eitthvað sé nefnt.

Bergdís Björk Bæringsdóttir, sérfræðingur í þrávirkum efnum hjá Umhverfisstofnun, segir mikilvægt að vekja athygli fólks á efninu.

„Það er akkúrat núna búið að vera ansi margar takmarkanir sem hafa verið að koma á þessi efni en afþví að það gengur frekar hægt, þá er bara verið að banna eitt og eitt efni í einu en ekki efnaflokkinn sem sjálfan,“ segir Bergdís.

Vísindasamfélagið tengt efnið við allskyns heilsufarskvilla

Efnin geta komist inn í líkamann með innöndun, í gegnum fæðu og með upptöku í gegnum húð. Hægt er að varast efnin með því að skoða merkingar á vörunum vel og vanda valið. Þær vörur sem ekki innihaldi efnin séu merktar PFAS-free, eða án PFAS-efna.

„Við mikla snertingu við þessi efni hefur vísindasamfélagið verið mjög hrætt við og tengt þetta við skjaldkirtilssjúkdóma, áhrif á frjósemi, hækkað kólestról, auknar líkur á sykursýki og lækkun á fæðingarþyngd nýbura ef konur eru óléttar,“ segir Bergdís.

PFAS efni hafa verið framleidd síðan á sjötta áratugnum og hafa þótt mjög eftirsóknarverð í alls kyns vörur, þar sem efnið hrindir frá sér bæði vatni og fitu.

Efnin leynast þó ekki einungis í útivistarvörum heldur geta leynst í öllum textíl- og leðurefnum sem eru vatns- og fitufráhrindandi, viðloðunarfríum pönnum og pottum, snyrtivörum, matvælaumbúðum, hreinsiefnum, raftækjum, skíðavaxi, vatnsvörnum, málningu, lökkum og slökkvitækjafroðu.

rebekkali's picture
Rebekka Líf Ingadóttir
Fréttastofa RÚV