Ríkisstjórn Búlgaríu fallin eftir sex mánaða valdatíð

epa10028266 Bulgarian Prime Minister Kiril Petkov speaks after the no confidence vote against government in front of Bulgarian parliament in Sofia, Bulgaria, 22 June 2022. The coalition government of Bulgaria, led by the pro-European Kiril Petkov, lost a censure motion in the Sofia Parliament on 22 June, presented by the conservative populist opposition, for which the Balkan country faces possible new elections, the fourth in less than 18 months. A total of 116 deputies supported Petkov's minority executive, prime minister for just six months, while 123 voted against the government and one did not go to the vote.  EPA-EFE/VASSIL DONEV
Kiril Petkov forsætisráðherra Búlgaríu ávarpar þingið eftir að meirihluti þingheims lýsti vantrausti á stjórn hans Mynd: EPA-EFE - EPA
Búlgarska þingið samþykkti í gær vantrauststillögu á ríkisstjórn Kirils Petkov forsætisráðherra, sem tók við völdum fyrir sex mánuðum. Þetta þýðir að ríkisstjórn landsins er fallin og líklegt þykir að boðað verði til nýrra þingkosninga. Petkov mun þó að líkindum freista þess að mynda nýja stjórn áður en til þess kemur.

Fari svo að kosið verður á ný yrðu það fjórðu þingkosningarnar frá ársbyrjun 2021. Sérfræðingar sem AFP ræddi við segja óvíst að nýjar kosningar leysi stjórnarkreppuna sem ríkir í landinu.

123 þingmenn samþykktu vantrauststillöguna, sem GERB-flokkur Boykos Borisov, fyrrverandi forsætisráðherra, lagði fram, en 116 voru á móti. Þetta er í fysta skiptið í lýðveldissögu Búlgaríu sem vantrauststillaga nær fram að ganga á þinginu.

Það voru fyrst og fremst deilur um Norður-Makedóníu og efnahagsmál, sem urðu stjórninni að falli, en Borisov sagði efnahagsstefnu Petkov-stjórnarinnar algjörlega misheppnaða. Búlgarar hafa beitt sér gegn aðild Norður-Makedóníu að Evrópusambandinu en töluvert hefur þokast í samkomulagsátt að undanförnu, sem er stjórnarandstöðunni mjög á móti skapi.

Heiður að leiða stjórn sem Rússar steyptu af stóli

Petkov, Harvard-menntaður hagfræðingur á fimmtugsaldri, var ekki síst kosinn til valda á grundvelli loforðs um að berjast gegn spillingu í búlgarska stjórnkerfinu. Hann tók skýra og eindregna afstöðu með Evrópusambandinu og NATO eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu, en stór hluti stjórnarandstöðunnar, þar á meðal flokkur Boykos Borisovs, er hallur undir Rússa. 

Petkov ávarpaði þingið eftir að vantrauststillagan var samþykkt og sagði það sannan heiður að hafa leitt ríkisstjórn sem Borisov, rússneskir ólígarkar og sendiherra Rússlands í Búlgaríu hefðu steypt af stóli. 

Óánægja stjórnarandstöðunnar með Petkov jókst til muna eftir innrásina. Forsætisráðherrann hafnaði kröfu Rússa um að borga fyrir jarðgas með rússneskum rúblum og Rússar hættu í kjölfarið öllum gasflutningi til landsins. The Guardian hefur eftir stjórnmálaskýrendum að Búlgarir verði hlutlausari í afstöðu sinni gagnvart þeim, komist hún aftur til valda.

Ný stjórn innan tveggja mánaða eða kosningar

Þrátt fyrir vantrauststillöguna er ekki fullvíst að kosið verði aftur í haust. Petkov hefur reyndar útilokað stjórnarmyndunarviðræður við stjórnarandstöðuflokka á þingi, en talið er að hann muni freista þess að lokka nógu marga þingmenn úr þeirra röðum til fylgis við sig til að ná meirihluta á ný og koma þannig í veg fyrir fjórðu kosningarnar á hálfu öðru ári. 

Takist honum það ekki innan tveggja mánaða, og engum öðrum flokkum heldur, ber forseta landsins, Rumen Radev, að rjúfa þing, boða til kosninga og skipa starfsstjórn fram að þeim.