Rannsókn undirskriftarmálsins ekki hafin

Mynd með færslu
 Mynd: Fréttir
Rannsókn á undirskriftamáli E-listans, Reykjavíkur; bestu borgarinnar, er ekki hafin. Yfirkjörstjórn í Reykjavík vísaði málinu til héraðssaksóknara í maí eftir að upp kom að Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, endaði í heiðurssæti E-listans fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor án þess að vita af því.

Birgitta var skráð í 24. sæti E-listans í Reykjavíkurborg. Í samtali við fréttastofu á sínum tíma sagði Birgitta að henni þætti líklegt að um mistök væri að ræða þar sem hún hefði ekki samþykkt að taka sæti á listanum og frétt af því í gegnum fjölmiðla.  

Gunnar H. Gunnarsson oddviti E-listans sagðist í samtali við fréttastofu ekki skilja hvernig Birgitta endaði í heiðurssæti á lista flokksins. Hann hefði fengið fregnir af því að hún væri á listanum en haldið að hún væri þar af fúsum og frjálsum vilja. 

Sjálf sagði Birgitta að henni hefði brugðið þegar hún sá skjalið með undirskrift sinni. „Ég var að sjá skjalið og þeir hreinlega fölsuðu undirskriftina mína.“  

Framboðið tekið gilt þrátt fyrir fölsun

Yfirkjörstjórn í Reykjavík fékk undirritaða yfirlýsingu frá Birgittu í hendurnar og framboð E-listans var úrskurðað gilt. Eva Bryndís Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík sagði í samtali við fréttastofu að fölsun undirskriftarinnar væri mál út af fyrir sig.  „Við þurfum þá að skoða það mál og ákveða í samráði við Birgittu hvort við beinum málinu til lögreglu eða hvort hún hafi frumkvæði að því sjálf.“

Umboðsmenn framboðslista E-listans og Birgitta fóru á fund yfirkjörstjórnar en yfirkjörstjórn hafði ekki forsendur til að fara með málið lengra. Eva Bryndís sagði þá í samtali við fréttastofu að yfirkjörstjórn hefði ekki lagalega heimild til að taka Birgittu út af framboðslista. „Við ákváðum því að fá að heyra hennar afstöðu og sjónarmið í málinu og ákveðið var að taka málið lengra og vísa því til héraðsaksóknara.“

Málið bíður nú afgreiðslu hjá héraðssaksóknara.