Hlutabréf Alvotech skráð í Kauphöllina í dag

23.06.2022 - 08:26
Mynd með færslu
 Mynd: Nasdaq - Alvotech
Hlutabréf líftæknifyrirtækisins Alvotech verða tekin til viðskipta í Kauphöllinni í dag. Alvotech verður þar með fyrsta fyrirtækið sem skráð er á markað bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi.

Hlutabréf félagsins voru tekin til viðskipta í kauphöll Nasdaq í New York fyrir viku síðan og verða nú tekin til viðskipta á First North markaði Nasdaq á Íslandi, sem sniðinn er að vaxtarfyrirtækjum. Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech, hringir lokabjöllu Nasdaq hlutabréfamarkaðarins á Íslandi í tilefni skráningarinnar í dag. 

Opnunarverð hlutabréfa Alvotech á fyrsta viðskiptadegi félagsins á markaði vestanhafs var 9,5 Bandaríkjadalir á hlut og fór hæst upp í 13,5 dali á hlut sama dag. Gengið stóð í 11,2 dölum á hlut eftir fyrsta viðskiptadag. Gengið hefur aftur á móti leitað niður á við síðan þá og stóð í 9,59 dölum við lokun markaða í gær.

Annað félagið sem bætist í Kauphöllina í vikunni   

Alvotech er annað félagið sem tekur hlutabréf sín til viðskipta á íslenskum hlutabréfamarkaði í þessari viku. Hlutabréf fjarskiptafélagsins Nova voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq á Íslandi á þriðjudag. Á fyrsta viðskiptadegi lækkaði gengi hlutabréfa félagsins um rúmlega níu prósent en í viðskiptum gærdagsins stóð gengið nánast í stað. Þá var Ölgerðin skráð á Aðalmarkað fyrir tveimur vikum síðan. Gengi bréfa félagsins stendur nú í 9,41 krónu á hlut, sem er sex prósentustigum yfir útboðsgengi í tilboðsbók A en sex prósentustigum undir útboðsgengi í tilboðsbók B.

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur, eins og markaðir víða erlendis, verið í nokkurri lægð undanfarið. Til marks um það hefur úrvalsvísitala Aðalmarkaðar lækkað um tæplega 24 prósentustig á árinu. Stýrivaxtahækkanir  og verðhækkanir aðfanga, sem meðal annars eiga rætur sínar að rekja til heimsfaraldursins og stríðsins í Úkraínu, hafa leikið hlutabréfamarkaði grátt.