Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Enoksen hættir formennsku

23.06.2022 - 05:54
Mynd með færslu
 Mynd: Malik Brøns - KNR
Hans Enoksen, einn stofnenda grænlenska stjórnmálaflokksins Naleraq og formaður hans frá upphafi, hefur látið af formennsku í flokknum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem flokkurinn sendi frá sér á í byrjun vikunnar. Eftirmaður hans verður valinn á aukaaðalfundi flokksins á laugardag.

Í tilkynningunni segir að Enoksen hafi óskað eftir að láta af formennsku þegar í stað, af persónulegum ástæðum. Við þessu hafi verið orðið og eru honum þökkuð vel unnin störf í þágu flokksins og grænlensku þjóðarinnar.

Áhrifamikill stjórnmálamaður í tveimur flokkum

Enoksen er þungavigtarmaður í grænlenskum stjórnmálum með langan feril að baki. Framan af ferlinum var hann þingmaður Siumut. Hann var formaður þess flokks frá 2001-2009 og formaður grænlensku landsstjórnarinnar frá desember 2002 fram í júní 2009.

Enoksen sagði skilið við Siumut í ársbyrjun 2014, stofnaði Naleraq og hefur verið formaður þess allar götur síðan.  Sem þingmaður hins nýja flokks gegndi hann meðal annars embætti forseta grænlenska þingsins í tvígang.

Í frétt grænlenska ríkisútvarpsins KNR segir að ekki hafi verið upplýst hverjar hinar persónulegu ástæður Enoksens fyrir afsögninni séu. Í tilkynningu flokksins komi einungis fram að þær séu alvarlegar og fjölmiðlar beðnir að sýna Enoksen tillitsemi í samræmi við það.

Tveir arftakar í sigtinu

Naleraq kemur saman til aukaaðalfundar á laugardag til að kjósa eftirmann hans. Í frétt grænlenska blaðsins Sermitsiaq segir ritstjóri blaðsins, Christian Schultz-Lorentzen, að tveir þingmenn flokksins séu líklegastir til að takast á um formennskuna, þeir Pele Broberg og Jens Napaattooq.

Vissulega væri lag fyrir flokkinn að velja sér konu sem formann, segir Schultz-Lorentzen, enda sé karlaslagsíðan þar með mesta móti. Aðeins fjórir af 30 frambjóðendum flokksins í síðustu kosningum voru konur. Að því sögðu - og með það í huga - er hins vegar ólíklegt að kona verði fyrir valinu, segir hann.