Veiða rækju með ljósi og fljúgandi veiðarfærum

22.06.2022 - 08:43
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Íslenskt fyrirtæki hefur þróað aðferð til þess að veiða rækju með ljósi í veiðarfæri sem aldrei snerta sjávarbotninn. Stofnandi fyrirtækisins segir að með þessu megi minnka olíunotkun og komast hjá því að róta upp mengandi efnum af botninum. 

Halla Jónsdóttir er stofnandi fyrirtækisins Optitog en nafnið stendur fyrir togveiðar með ljósi. 

„Við erum að þróa næstu kynslóð veiðarfæra. Veiðarfæri sem geta flogið nálægt botni án þess að koma við botn. Svo erum við með ljós sem smala upp. Við erum með gögn um það að þegar við kveikjum á ljósum fyrir rækjur þá fáum við töluvert meira af rækju inn en þegar slökkt er á ljósunum þegar við erum að fljúga yfir botninn. Við erum með sérstök ljós sem mynda eins og vegg eða línu í sjó og við sjáum að þetta virkar til að smala,“ segir Halla.

Ljósið virkar eins og smali á rækjuna

Rækjan syndir undan ljósveggnum, upp af botninum og upp í veiðarfærin.

„Við erum sum sé með sérstaka tækni sem gerir það að verkjum að við getum farið mjög nálægt botni án þess að snerta botn og þá er tiltölulega auðvelt að smala því sem er nálægt botni upp með ljósum,“ segir Halla.

Veiðarfærin snerta aldrei botn

Unnt er að stilla veiðarfærin þannig að þau séu alltaf í ákveðinni fjarlægð frá botni, til dæmi þrjátíu sentimetrum. 

„Við erum sum sé komin með aðila sem vill setja þetta á markað fyrir okkur og hann er í Noregi. Og er að markaðssetja umhverfisvæna tækni fyrir fiskveiðar,“ segir Halla.

Dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda

Halla telur að tæknina sé unnt að nota í veiðar á fleiru en rækju. Með því að veiða með ljósi eru veiðarfærin aldrei dregin eftir botni og því þyrlast ekki upp set með mengandi eða lífrænum efnum sem auka á losun gróðurhúsalofttegunda. Þá þurfa veiðarnar minni orku og því þarf minna af olíu. 

„Svo er náttúrulega botn sums staðar með bæði svömpum og kóröllum og fleiru sem getur ekki verið annað en gott að fá að vera þarna og vistkerfið fái að vera sem heilbrigðast og sterkast,“ segir Halla.