
Skotið á fólksbíl í Hafnarfirði
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir fréttamaður sagði í útvarpsfréttum klukkan ellefu að lögreglumönnum og sérsveitarmönnum fjölgaði ef eitthvað er, þeim hafi í það minnsta ekki fækkað. „Sérsveitin er vopnum búin hér fyrir utan, einn þeirra er hreinlega með vopn uppi við. Sérsveitarbílnum er lagt þvert yfir götuna og hann er tilbúinn með byssuna á húddinu. Það er mjög mikill viðbúnaður.“
„Það virðist sem húsið hafi ekki verið rýmt. Það eru allavega íbúar á svölunum að fylgjast með,“ sagði Hólmfríður Dagný.
Lögregla telur að skotmaðurinn sé í íbúð sinni í fjölbýlishúsinu og ræða samningamenn lögreglu við hann í síma.
Lögreglan sendi frá sér tilkynningu á ellefta tímanum þar sem greint var frá því að skotið hefði verið á kyrrstæðan bíl. Þar kemur jafnframt fram að starfsfólki og börnum á leikskólanum hafi verið skipað að halda sig innandyra meðan á aðgerðum stendur. Lokað hefur verið fyrir alla umferð um hluta Miðvangs. Lögregla veitir ekki frekari upplýsingar að svo stöddu.
Svæðið telst ekki öruggt og hefur lögregla girt það af. Almennir lögreglumenn tryggja að enginn fari þar inn fyrir.
Lögreglan notar meðal annars dróna í aðgerðum sínum við húsið. Sérsveitarmennirnir eru vopnaðir og beindu um skeið byssu að fjölbýlishúsinu.
Leikskólanum Víðivöllum hefur verið lokað og foreldrum tilkynnt að þau börn sem mætt eru í skólann séu örugg. Öllum leiðum til og frá leikskólanum hefur verið lokað.
Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar í Hafnarfirði, staðfestir í samtali við fréttastofu upp úr klukkan níu að sérsveitin hafi verið kölluð út í Hafnarfirði. Hann vildi þó ekki veita frekari upplýsingar að svo stöddu.
Fréttin var síðast uppfærð 11:09.